144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

fyrningarfrestur í gjaldþrotaskiptum.

[11:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Gert var ráð fyrir því þegar þessi lög voru sett, eins og hv. þingmaður nefndi, að innan fjögurra ára skyldi skoða hvort ástæða væri til þess að breyta þeim þætti að fyrningarfrestur væri tvö ár eins og núna er kveðið á um í 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Innanríkisráðuneytið fór síðastliðið haust í gegnum það ásamt velferðarráðuneytinu hvort ástæða væri til að gera einhverjar breytingar þar á og skrifaði bréf til hv. allsherjar- og menntamálanefndar þar að lútandi. Niðurstaða ráðuneytisins er sú að það sé engin ástæða til að gera breytingar. Sú afstaða kom reyndar líka fram hér undir stefnuræðu forsætisráðherra síðasta haust að fyrningarfrestur væri tvö ár.

Ákvæðið er með þeim hætti að það gildir. Það þarf ekkert að staðfesta það. Það gildir þar til að lögum verður breytt í framtíðinni. Ef menn vilja breyta lögum geta þeir auðvitað gert það með því að leggja fram lagafrumvarp eins og við þekkjum. Það eru engin áform um að gera slíkt. Það er tveggja ára fyrningarfrestur í gjaldþrotaskiptalögunum. Hann stendur. Það stendur ekki til að breyta því. Ráðuneytið hefur farið í gegnum þetta og komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi ekkert að gera neitt frekar. Það eru engin áform uppi í innanríkisráðuneytinu um að gera breytingar á þessu og hverfa til baka með þetta heldur gildir tveggja ára fyrningarfrestur.