144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf að ganga vel um þessa fjármuni eins og aðra og ég treysti hv. þm. Frosta Sigurjónssyni ágætlega til að skoða það mál. Mér hefur fundist hann vera varfærinn þegar hann hefur nálgast þetta og gerði það einmitt í ræðu sinni.

Hv. þingmaður nefndi lokafjárlögin og gagnsæi og við höfum verið að tala svolítið um það, hvernig við getum birt þau betur og allt það. Við í fjárlaganefnd óskuðum einmitt eftir því, og það er ágætt af því að formaður fjárlaganefndar er hérna, að fá upplýsingar um skattkröfurnar. Við báðum Ríkisendurskoðun að fara aðeins ofan í það fyrir okkur og velta þessu upp og við höfum ekki fengið svar við því að mér vitanlega hvers vegna þær eru svona miklar og hvernig þeim er skipt og af hverju þetta er með þessum hætti. Það er kannski kominn tími á að reyna að ýta svolítið á að fá svör við því. Þetta er eitthvað sem við erum sammála um að við viljum reyna að laga.

Þingmaðurinn nefndi líka hvernig hægt væri að fara fram úr áætlunum og tók sem dæmi hjúkrunarheimilið Hulduhlíð minnir mig, alla vega var það nefnt hér áðan. Þá er það svo að það fer að miklu leyti fram úr vegna þess að verktakinn fer á hausinn. Skýringin var sú. En það breytir því ekki að það er gert væntanlega með vitund og vilja ráðherra og ráðuneyta. Það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi eða ég get ekki séð fyrir mér að hægt sé að framkvæma svona stórkostlega framúrkeyrslu öðruvísi af því að ríkið greiðir 85% og sveitarfélögin 15%. Ríkið hlýtur að hafa eftirlitsaðila og ráðuneytin hljóta að vera upplýst um þetta og heimila þetta um leið. Þess vegna tek ég undir að mér finnst að það eigi að auka ábyrgð ráðherra, þ.e. utanumhaldið með ráðuneytum sínum, stofnunum og framkvæmdum.