144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir því nefndaráliti sem hæstv. forseti kynnti. Hér er gert ráð fyrir því að gerðar verði breytingar á ýmsum ákvæðum réttarfarslaga. Markmið þessa frumvarps er að auka skilvirkni við afgreiðslu dómsmála með því að einfalda reglur og auka hraða í málsmeðferð.

Í 18. gr. frumvarpsins, sem við fjöllum sérstaklega um, er mælt fyrir um að skýrslutaka brotaþola yngri en 15 ára skuli að jafnaði fara fram í sérútbúnu húsnæði fyrir skýrslutöku af börnum sem sé staðsett annars staðar en í dómshúsi, en slíka aðstöðu er nú að finna í svonefndu Barnahúsi. Einungis verður unnt að gera undantekningu frá þeirri meginreglu krefjist hagsmunir brotaþolans þess. Sú ákvörðun verður að vera byggð á því að hagsmunum barnsins sé betur borgið með slíkri ákvörðun. Ýmsir umsagnaraðilar bentu á að hér væri verið að lækka aldurstakmarkið úr 18 árum í 15 ár frá því sem er í lögum um meðferð sakamála. Þeir töldu að hér væri um að ræða afturför varðandi réttindi barna, en við fjölluðum talsvert um það í nefndinni og reglan er auðvitað sú að sakhæfisaldur er 15 ár hér á landi, þess vegna þótti rétt að miða þessa sérstöku heimild við það aldurstakmark. Þetta er frávik frá meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu, en með milliliðalausri sönnunarfærslu er átt við að sami dómari annast meðferð máls frá upphafi til enda, þar á meðal leysi hann eftir atvikum úr því fyrir dómi. Reglan felur það í sér að sá dómari sem dæmir taki skýrslur af ákærða og vitnum og jafnframt séu önnur sönnunargögn færð fyrir hann til að tryggja að rétt niðurstaða fáist í hverju máli.

Einnig var bent á að skylda ætti dómara til að kveðja ávallt til einstakling með sérþekkingu á málefnum barna til að aðstoða við skýrslutöku, en við bendum á í nefndaráliti okkar að þær breytingar sem hér er lagðar til séu einungis til að styrkja þá heimild sem nú þegar er til staðar í lögum svo að skýrt sé kveðið á um að skýrslutaka af börnum undir 15 ára aldri fari ávallt fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss nema ljóst sé að það varði hagsmuni barnsins að gera annað. Dómari stýrir þinghaldi og velur þá og metur hvort og þá hvaða kunnáttumaður eigi að aðstoða við skýrslutöku.

Ég vil vekja athygli á varðandi það atriði að þá eru fjórir hv. þingmenn með fyrirvara á álitinu, þ.e. Guðbjartur Hannesson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Páll Valur Björnsson og Helgi Hrafn Gunnarsson. Þeir telja rétt að það væri rétt að nota orðalagið Barnahúsi eða öðru sérútbúnu húsnæði, þ.e. þá Barnahúsi með stóru b-i og þannig veita Barnahúsi lagagrundvöll til að styrkja starfsemi þess, en þetta kemur fram hér í lok þessa nefndarálits.

Við fjöllum jafnframt talsvert í nefndinni um hámarkslengd ákæru. Við höfum séð það á undanförnum árum að ákærur geta orðið ansi langar í stórum málum og það er meginregla að ákærur eiga að vera stuttar og skýrar. Fram kom í umsögn ríkissaksóknara að það væri æskilegt að setja leiðbeiningar um lengd ákæru. Embætti sérstaks saksóknara benti á að það þyrfti oft lengri ákærutexta en gerist og gengur þegar til dæmis er um að ræða stór fjárdráttarmál. Í stað þess að settar yrðu reglur um hámarkslengd ákæru yrðu sett viðmið um hámarkslengd þannig að það væri rökstutt ef nauðsyn bæri til að ákæra væri lengri en reglurnar sem dómstólaráð kvæði á um.

Við ræddum þetta talsvert í nefndinni og teljum nauðsynlegt að dómstólaráð setji þessar reglur, en bendum á að lengd ákæruskjala geti tekið mið af umfangi mála í hverjum málaflokki. Dómstólaráð gæti haft samráð við embætti sérstaks saksóknara, ríkissaksóknara og Lögmannafélagið við smíði slíkra reglna.

Í 161. gr. sakamálalaganna er kveðið á um svonefnd útivistarfyrirköll og fjölluðum við talsvert um það atriði í nefndinni. Við setningu sakamálalaganna var gerð orðalagsbreyting á ákvæðinu og var ætlunin á þeim tíma að sú breyting mundi ekki hafa áhrif á túlkun þess. Hins vegar hefur komið í ljós að Hæstiréttur túlkar þetta ákvæði eftir orðanna hljóðan og hefur ómerkt mál sem dæmd eru eftir ákvæðinu. Þess vegna leggjum við til orðalagsbreytingu þannig að afgreiða megi mál með útivistardómi jafnvel þótt ákærði hafi mætt við þingfestingu samkvæmt löglega birtri ákæru ef þingsókn fellur niður af hans hálfu síðar. Hér er um tæknilegt atriði að ræða sem engu að síður er mikilvægt í ljósi dóma Hæstaréttar.

Við fjölluðum talsvert um 27. gr., varðandi endurritun við uppkvaðningu dóms í játningardómum. Þar er lagt til að heimilt verði að dómsorð sé lesið upp í sama þinghaldi og afstaða sakbornings liggur fyrir.

Umsagnaraðilarnir sem við fengum á okkar fund voru jákvæðir en töldu að endurrit þyrfti að liggja fyrir innan tiltekins tíma þannig að alveg væri ljóst hvaða tími það væri. Við leggjum því til breytingar þar að lútandi.

Í 29. gr. er fjallað um endurupptöku mála. Hér er um að ræða almenna endurupptökuheimild þegar einhver þau skilyrði sem talin eru upp í 1. mgr. 211. gr. sakamálalaga eru fyrir hendi, en hér er lagt til að maka, börnum, foreldrum eða systkinum látins dómþola verði heimilt að óska eftir endurupptöku máls.

Fram komu þær athugasemdir að hugsanlega þyrfti að setja hlutlægari skilyrði fyrir endurupptöku, sérstaklega varðandi aldur þeirra mála sem beðið er um endurupptöku á og að gera þyrfti grein fyrir því hvað í því fælist að sérstaklega stæði á. Nefndin ræddi þetta talsvert og bendir á að umsækjandi muni njóta sömu réttarstöðu og dómfelldi máls, þ.e. umsækjandi á sama rétt og hinn látni til að fá sér skipaðan lögmann og sömu reglur munu gilda um kostnaðargreiðslur vegna hans. Við tökum líka fram, og það er mjög mikilvægt, að endurupptökunefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og við teljum að rétt sé að hún setji sér starfsreglur um hvaða atriði það geti talist falla undir það að sérstaklega standi á í máli.

Að lokum gerum við hér breytingartillögu varðandi gildistökuna þannig að frumvarpið, verði það að lögum, taki gildi 1. ágúst næstkomandi. Það er til þess að tími gefist til þess að setja þær reglur sem nauðsynlegt er að setja vegna þessara breytinga, þ.e. varðandi meðferð kærumála og birtingu dóma. Við leggjum jafnframt til að sérstakt lagaskilaákvæði vegna breyttra reglna um kærur til Hæstaréttar komi til.

Lagatæknilegar breytingar eru nokkrar sem greindar eru hér í breytingartillögu með nefndarálitinu.

Að því loknu leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér greinir. Ég hafði áður gert grein fyrir fyrirvara hv. þingmanna Guðbjarts Hannessonar, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, Páls Vals Björnssonar og Helga Hrafns Gunnarssonar, en auk þeirra skrifa undir þetta nefndarálit sú sem hér stendur, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.