138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn lög um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, bæði þegar Alþingi ákveður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og eins þegar skylt er samkvæmt stjórnarskrá að bera tiltekin mál undir þjóðaratkvæði.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum til Alþingis, sveitarstjórna og forsetakjörs. Jafnframt er tekið fram að við gerð kjörskrár vegna þjóðaratkvæðagreiðslu skuli miðað við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Á einum stað í frumvarpinu eru ákvæði um talningu atkvæða og margvísleg atriði er lúta að framkvæmdaratriðum þjóðaratkvæðagreiðslu. Án þess að ég telji upp í ítarlegu máli öll þau atriði sem frumvarpið tekur til er í stuttu máli hægt að segja frá því að með þessu er búið svo um hnútana að þegar Alþingi ákveður að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu verði það framkvæmt með sambærilegum hætti og gert var þegar kosið var um Icesave-frumvarpið eftir synjun forseta Íslands. Sú framkvæmd tókst afar vel og ekki mikil þörf á lagfæringum eftir hana þannig að hér er í raun og veru verið að binda þá framkvæmd í lög.

Undir þetta nefndarálit skrifar meiri hluti allsherjarnefndar, auk undirritaðs hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Birgir Ármannsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir og Ögmundur Jónasson.

Þessi meiri hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.