145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:55]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þessi þingmaður væri alveg reiðubúinn til þess að breyta tillögunni þannig að hún yrði bindandi. Ég held að það sé engin spurning um að þróunin verði sú að við sjáum ákvarðanir í fleiri málum færðar út til þjóðarinnar og þær verði mögulega bindandi. Ég vil hins vegar ekki deila með hv. þingmanni þeirri skoðun að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur séu tilgangslausar. Ég neita algjörlega að samþykkja að það geti nokkurn tímann orðið ásættanlegt að stjórnmálamenn eða Alþingi, stjórnmálaflokkar, hunsi vilja sem kemur fram í þjóðaratkvæðagreiðslum eða kjósi, án þess að rökstyðja það verulega vel, að ganga á bak orða sinna. Það þykir mér alvarlegt mál. Það sem mér þykir vera kannski grunnurinn að mesta óvinafagnaðinum og mestu gerjuninni, mestu mótmælunum sem við höfum séð síðustu árin, er einmitt að almenningur hefur upplifað að stjórnmálin, stjórnmálamenn standi ekki við ákvarðanir sínar. Það er einmitt í þeim anda sem þessi tillaga er lögð fram. Hún er lögð fram til þess að knýja áfram að stjórnmálin á Íslandi og hv. Alþingi þrýsti á ríkisstjórn sína að fara að vilja Alþingis (Forseti hringir.) sem var samþykktur hérna 16. júlí 2009.