145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:21]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra hvað hv. þingmaður er viss í sinni sök um hversu andstyggilegt fyrirbæri Evrópusambandið er og hann vilji alls ekki sjá að Ísland gangi þar inn. (Gripið fram í.) Ég leyfi mér að vera mjög ósammála hv. þingmanni. En það er akkúrat þetta ósamkomulag og þessi mismunandi sýn á Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu sem heldur áfram í umræðunni, sem deyr ekki í umræðunni. Þess vegna erum við að leggja til að þessum samningaviðræðum verði áfram haldið, leiddar til lykta þannig að við sjáum hvaða samningur væri í boði svo hægt sé einmitt að taka afstöðu til hans.

Mig langaði samt aðallega til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann hefur talað hátt um að Evrópusambandið sé breytt. Vissulega hafa aðstæður í Evrópu breyst. En í grunninn er Evrópusambandið, samningar og reglur þess, ekki breytt frá 2009 fyrir utan það að Króatía hefur gengið inn. Hv. þingmaður talar um Evrópuher. Það er alveg ljóst að sá her er ekki til. Evrópa er ekki hernaðarbandalag, heldur hefur þvert á móti einkennt þá áratugi sem Evrópusambandið hefur verið við lýði óvenjulangur friðartími í Evrópu eða löndum Evrópusambandsins. En mig langaði að spyrja hv. þingmann fyrst og fremst hvort honum finnist að afstaða hans gegn aðild að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) sé svo rétt að hún sé sterkari en samþykkt Alþingis sem samþykkti (Forseti hringir.) árið 2009 að sækja um aðild og leiða aðildarviðræður til lykta.