145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúrustofur.

647. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni andsvarið og get heils hugar tekið undir það með honum að byggðavinkillinn er mjög mikilvægur. Eins og ég rakti í ræðu minni verður það í rauninni seint metið hversu miklu máli það skiptir að fá inn fjölbreytta þekkingu í hvert samfélag í gegnum það að búa til vettvang fyrir fræðastarf af þessu tagi. Við getum t.d. nefnt að sú náttúrustofa sem ég þekki best, þó að ég telji að ég hafi heimsótt þær velflestar, er sú sem starfar á Austurlandi. Þar eru átta starfsmenn. Það munar um minna þegar verið er að byggja upp samfélag og tengja saman þekkingarstarfsemi, bæði innan landshlutans og út á við við erlent fræðastarf. Við getum tekið hreindýrin, sem er sérstakt verkefni á Austurlandi. Þar er t.d. samstarf við Noreg á ýmsum sviðum, í sambandi við vöktun hreindýra, vöktun á hreindýrabeit og fleiri sviðum sem í rauninni væri kannski erfitt að koma við nema akkúrat af því að starfandi náttúrustofa er á Austurlandi.

Ég tel þess vegna mikilvægt að í vinnu þessa starfshóps verði horft mjög vítt á samstarfsmöguleika, bæði við setrin eins og hv. þingmaður kom inn á og eins háskóla og aðrar stofnanir á landsvísu.