138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[11:10]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er sögulegt frumvarp á ferðinni að því leyti að við tökum í fyrsta sinn upp heildstæða löggjöf um ívilnanir til handa þeim aðilum sem vilja fjárfesta í atvinnulífi okkar, hvort sem það eru innlendir eða erlendir aðilar. Þarna er mjög margt til bóta, við förum hér út úr því umhverfi sem við höfum þekkt á undanförnum árum, að vera með fjárfestingarsamninga um einstök verkefni, mjög ógegnsætt langdregið fyrirkomulag sem hefur verið gagnrýnt með réttu á undanförnum árum. Við stígum hér stórt skref inn í nýtt umhverfi sem gefur okkur færi á því að laða til landsins ýmiss konar fjárfestingarverkefni sem munu gera íslenskt atvinnulíf fjölbreyttara og skjóta styrkari stoðum undir atvinnusköpun hér á landi.

Mikil samstaða var í iðnaðarnefnd um málið og ég vil þakka sérstaklega fyrir hana. Á lokastigum málsins kom fram ágreiningur um hvort leyfa ætti nýfjárfestingar í fjármálastarfsemi. Meiri hluti nefndarinnar telur hins vegar rétt (Forseti hringir.) að stíga mjög varlega til jarðar, sérstaklega í ljósi þess að við erum enn þá að reyna að byggja upp til framtíðar traustara og öruggara fjármálakerfi.