145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flutningsmenn eru auk mín þau Páll Valur Björnsson, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, þingmenn Bjartrar framtíðar.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 29. október 2016 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Svarmöguleikarnir yrðu tveir, já eða nei.““

Árið 2009 samþykkti Alþingi þann 16. júlí að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Var það gert og hófust viðræður Íslands og Evrópusambandsins og stóðu fram yfir áramótin 2012/2013 þegar gert var hlé á virkum viðræðum fyrir kosningarnar 2013. Eftir kosningarnar 2013 hélt þetta hlé áfram en þá höfðu báðir stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, talað fyrir því fyrir kosningar að haldin yrði sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla (Gripið fram í: Það er rangt.) um það hvort áfram skyldi halda eða ekki.

Árið eftir var lögð fram stjórnartillaga á Alþingi um að draga umsókn Íslands til baka en hún komst ekki í gegnum þingið. Síðar var sent einhliða bréf frá hæstv. þáverandi utanríkisráðherra til Evrópusambandsins þar sem lagt var til eða réttara sagt tilkynnt að umsóknin væri ekki lengur gild og vakti það mjög mikla úlfúð, mikil mótmæli, undirskriftasafnanir o.s.frv. hér á Íslandi enda hafði sú ákvörðun ekki verið tekin á Alþingi, þ.e. ákvörðun Alþingis frá 2009 um að sækja um aðild hafði ekki formlega verið dregin til baka.

Þess vegna leggjum við þessa tillögu til þingsályktunar fram. Hún er orðrétt eins og tillaga sem var lögð fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga þá, fyrir utan að hér er komin inn dagsetning, sú dagsetning sem rætt er um að verði dagsetning þingkosninga í haust. Við teljum mikilvægt að þetta mál sé leitt til lykta. Það er augljóst að íslensk pólitík virðist ekki megna að taka ákvörðun um hvernig skuli halda áfram að fylgja eða fylgja ekki ákvörðun Alþingis frá 2009. Því er mikilvægt að fara út í þá fáheyrðu aðgerð að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skuli áfram viðræðum eða ekki.

Það skal tekið fram að ekki eru dæmi um að haldnar hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslur um að hefja viðræður eða halda áfram viðræðum við Evrópusambandið þó svo að mörg dæmi séu um það að þegar samningaviðræðum er lokið séu haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur um það hvort þjóðir samþykki inngöngu eða ekki. Það hefur alltaf staðið til frá 2009 þegar Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að það yrði gert með því fororði að samningurinn yrði lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Við tökum það sérstaklega fram í annars frekar snaggaralegri spurningu að það standi til.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt um þessa tillögu, hún skýrir sig sjálf. Við teljum mikilvægt að fá úr því skorið hvert áframhaldið eigi að vera og að það sé gott að hafa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu með þingkosningum. Auðvitað er það til sparnaðar, en auk þess fer vel á því að það Alþingi sem tekur við eftir kosningar hafi skýra leiðsögn í þessu mikilvæga máli.