145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir margt í ræðu hv. þingmanns, þess vegna tel ég mikilvægt að breytingartillögur við stjórnarskrá Íslands, um þjóðaratkvæðagreiðslur og utanumhald um þær, verði samþykktar sem fyrst og verði sem skýrastar.

Ég vil samt minna hv. þingmann á það, þrátt fyrir að hann sé kannski dálítið svartsýnn á stjórnmálin og samskipti stjórnmálanna við almenning, að við horfum nú fram á að það er verið að flýta kosningum. Það er að undirlagi ríkisstjórnarinnar, traust til ríkisstjórnarinnar var orðið það lítið að hún sá sér ekki annað fært en að sækjast eftir endurnýjuðu umboði í kosningum áður en kjörtímabilinu var lokið. Ég vil meina að þetta sé ekki ótengt því og tilraunum þessarar ríkisstjórnar til að ganga á bak loforða sinna, eða því sem stór hluti almennings í það minnsta upplifði sem loforð, um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna og tilraunum til að draga umsóknina til baka án þess að leggja þá ákvörðun fyrst fyrir Alþingi. Ég held að sá trúnaðarbrestur sem varð í þeirri snerru hafi að mörgu leyti verið upphafið að því fullkomna vantrausti sem varð til þess að við göngum nú til kosninga fyrr en ella.