145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:25]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir að margar hugmyndir eru um hvernig Evrópusambandið eigi að þróast og margt hefur verið sagt þar að lútandi. Þær hugleiðingar breyta ekki því hvernig sambandið er. Hv. þingmaður talaði um það áðan og hefur notað orðið bjölluat oftar en einu sinni. Sem mér þykir frekar leiðinlegt orðalag yfir formlega samþykkt Alþingis og formlegt ferli sem hefur farið fyrir öll ríki í Evrópu og verið samþykkt og farið eftir mjög föstum prótókól, umsóknarferli og samningaferli sem allar þjóðir sem hafa gengið í Evrópusambandið frá því að stofnþjóðirnar gengu þar inn hafa farið í gegnum. Í mörgum tilvikum hefur það ferli hafist án þess að það hafi verið ljóst, eða jafnvel að það hafi verið ljóst, að ekki hafi verið meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir inngöngu áður en samningaviðræðum væri lokið. Ég vil bara segja að einhver stikkprufa á vinsældum óljósrar aðildar er ekki endilega best, segir ekki endilega alla söguna.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann telur að umsókn Íslands (Forseti hringir.) og umsóknarferlinu eigi að ljúka, hvað hann telji bestu leiðina til að gera það eða hvort hann telji ekki að samþykkt Alþingis frá 2009 sé enn í gildi.