145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúrustofur.

647. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um náttúrustofur. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa síðustu 20 árin og meta hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum. Þá verði hópnum falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best.

Meðflutningsmenn á tillögunni ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Brynhildur Pétursdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Einar Daðason, Willum Þór Þórsson, Páll Jóhann Pálsson og Valgerður Gunnarsdóttir.

Tilefni tillögunnar er m.a. að nú er mikil deigla í náttúru og umhverfisvernd á Íslandi vegna nýrra loftslagsmarkmiða og vaxandi ferðamennsku og almennt meiri umhverfisvitundar og því mikilvægt að fara yfir hvernig fjármagni og fagþekkingu á því sviði er varið og hvernig það getur nýst íslensku samfélagi sem best. Náttúrustofur gegna mikilvægu hlutverki samkvæmt lögum hvað varðar náttúrurannsóknir og framkvæmd náttúruverndar í samstarfi við stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Nú eru rúm 40 ár síðan fyrstu hugmyndir um náttúrustofur landshlutanna komu fram og rúm 20 ár síðan fyrsta stofan hóf starfsemi. Hugmynd um stofnun náttúrustofa má rekja aftur á 8. áratuginn til nefndar sem vann tillögur um tengsl náttúrugripasafna Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrufarsrannsókna. Hugmyndirnar þróuðust síðan í 20 ár þar til þær urðu að lögum nr. 60/1992. Í framhaldi var Náttúrustofa Austurlands stofnuð árið 1995 þá fyrst náttúrustofa en síðan voru stofurnar stofnaðar ein af annarri og eru nú átta talsins.

Fyrstu árin voru stofurnar reknar með beinni aðild ríkisins sem skipaði einn stjórnarmanna en með lagabreytingu árið 2002 dró ríkið sig út úr beinni aðild að stofunum en gerðir voru samningar um fjárframlög ríkisins til stofnana við sveitarfélögin sem eiga þær og reka.

Frá árinu 2002 hefur smátt og smátt dregið úr tengslum náttúrustofa við umhverfis- og auðlindaráðuneytið þrátt fyrir að lesa megi úr umræðunni frá þeim tíma að ætlunin hafi ekki verið að draga úr samvinnu við stofnanir ríkisins heldur að skýra rekstrarlega ábyrgð. Jafnframt hefur dregið úr fjárframlögum ríkisins til stofnananna.

Nú eru eins og áður sagði starfandi átta náttúrustofur en jafnframt hafa í sumum landshlutum byggst upp þekkingarsetur sem starfa á sviði náttúrufræða með stuðningi ríkis og sveitarfélaga. Það er því lagt til að í vinnu starfshópsins verði horft til þess hvernig samstarf náttúrustofa og setra í sama landshluta geti styrkt starf beggja aðila.

Á þessum 20 árum hefur það sýnt sig að auk lagalegs hlutverks gegna náttúrustofurnar mikilvægu samfélagslegu hlutverki þar sem starfsemi þeirra styrkir innviði, hækkar menntunarstig og eykur þekkingu í þeim samfélögum þar sem þær starfa. Ávinningur samfélaganna er því margvíslegur og hjá stofnunum starfar fólk sem ólíklegt er að byggi á landsbyggðinni ef þessi starfsemi væri ekki til staðar. Þá eru háskólanemar oft ráðnir í sumarstörf á stofunum en það er einmitt það sem oft skortir, að sumarstörf tengd háskólanámi séu til staðar á landsbyggðinni.

Náttúrustofur eru reknar með stuðningi ríkis og leggja aðildarsveitarfélög að lágmarki fram 30% af framlagi ríkisins. Náttúrustofurnar eru svo sjálfar ötular við öflun sértekna á sínu fræðasviði, svo með útseldum verkefnum og styrkjum. Þannig draga þær inn í landsbyggðirnar fjármagn og auka þá fjárhagsleg umsvif í sveitarfélögunum þar sem þær starfa með viðskiptum við þjónustuaðila og þar með aukast útsvarstekjur beint og óbeint.

Þekking á náttúrufræði gagnast líka beint við ýmis verkefni í samfélaginu, svo sem skipulag sveitarfélaga og uppbyggingu ferðaþjónustu og ýmissa annarrar atvinnustarfsemi og stuðla þar með að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Jafnframt nýtist þessi þekking við fræðslu til almennings og í skólastarfi. Þá gagnast þekking á náttúrufari einnig óbeint í samfélaginu. Starfsemi náttúrustofa krefst vel menntaðs starfsfólks, sem er mikilvægt þar sem stefnt er að fjölbreyttu og öflugu samfélagi. Störf á vegum stofanna geta dregið að fólk sem síðan ílengist þótt það snúi sér að öðrum verkefnum á svæðinu. Þannig vinnur starfsemin gegn spekileka á landsbyggðinni og styrkir árangursríka byggðastefnu. Fjölbreytt og öflugt samfélag byggir á þeim störfum sem sinnt er í samfélaginu en ekki síður á því að íbúar með mismunandi bakgrunn séu til staðar til að sinna verkefnum sem flokkast undir tómstundir. Ávinningur þess að í boði séu störf fyrir náttúrufræðinga er því margvíslegur þótt erfitt geti reynst að meta þann ávinning sem fylgir því að náttúrufræðingar starfi í foreldrafélaginu eða mæti á íbúafundi.

Þegar náttúrustofum eru falin verkefni er það því kjörin leið til að flytja opinber störf á landsbyggðina. Þótt mikilvægt sé að stofnanir sem starfa á landsvísu hafi yfirsýn yfir vöktun og rannsóknir getur það verið hagkvæmara fyrir samfélagið í heild að verkefni séu unnin á svæðisbundnum stofnunum, ferðakostnaður verður minni, hægt er að bregðast við óvæntum aðstæðum í náttúrunni og mögulegt er að samþætta fjölbreytt verkefni á svæðinu. Þannig felst mikill styrkleiki í landfræðilegri dreifingu stofnana. Umhverfisráðuneyti og stofnanir þess ættu að nýta sér það eins og mögulegt er til að nýta fjármuni og þekkingu sem best. Að fela náttúrustofum aukin verkefni við vöktun og rannsóknir á íslenskri náttúru, svo sem á gróðurfari, fuglalífi og náttúruverndarsvæðum, er því vænleg leið til að tryggja fjölbreyttari störf dreift um landið og hámarka nýtingu þekkingu og fjármagns.

Einnig er brýnt að útfæra betur en nú er lagalegt hlutverk náttúrustofa við náttúruvernd þar sem verkefni á því sviði verða sífellt meira aðkallandi um land allt. Það er hins vegar efni í aðra ekki svo stutta umræðu sem ekki verður farið út í hér.

Ef vilji væri til þess að fela náttúrustofunum fleiri verkefni á vegum ríkisins eru nokkrar leiðir mögulegar, svo sem að fela stofunum verkefni með lögum, að fela stofunum verkefni með sérstökum samningum við ráðuneyti, annaðhvort um ný verkefni eða um verkefni sem nú þegar eru lögbundin. Þá er mögulegt að fela stofnunum verkefni með sérstökum ráðuneytisbréfum eða með sérstökum samningum milli náttúrustofa og þeirra stofnana sem bera ábyrgð á verkefnum á landsvísu.

Eins og áður sagði var lögum um stofurnar breytt árið 2002. Þá dró ríkið sig út úr beinni aðild en gerðir voru samningar við sveitarfélögin sem eiga og reka stofurnar. Þrátt fyrir að ætlunin hafi verið að halda áfram sterku sambandi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur smátt og smátt dregið úr tengslunum. Vilji löggjafans á árinu 2002 þegar lagabreytingin var samþykkt kemur m.a. skýrt fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis frá 127. löggjafarþingi árið 2001–2002, en þar segir á þskj. 1220, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að í þeim samningum sem ráðherra mun gera við náttúrustofur, á grundvelli 2. gr. frumvarpsins, verði kveðið á um að umhverfisráðuneytið fundi reglubundið með Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins þar sem farið skuli yfir þau verkefni sem stofnanirnar hafa falið náttúrustofum á grundvelli d- og e-liðar 4. gr. frumvarpsins.“

Á náttúrustofuþingi 2005 staðfesti þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir þennan skilning í ræðu. Sé vitnað til ræðunnar, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að umhverfisráðuneytið fylgist vel með starfsemi náttúrustofa, og hafi yfirsýn yfir þau verkefni sem Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa falið þeim. Í samstarfssamningnum er kveðið á um samstarf ráðuneytisins við náttúrustofur þar sem farið er yfir slík verkefni. Fyrsti samstarfsfundurinn var haldinn í nóvember 2003 en gert er ráð fyrir að þessir fundir séu haldnir á tveggja ára fresti.“

Af þessum tveimur tilvitnunum er ljóst að álit ráðherra, ráðuneytis og Alþingis var árið 2002 að náttúrustofur gegni mikilvægu hlutverki hvað varðar náttúrurannsóknir og framkvæmd náttúruverndar í samstarfi við stofnanir umhverfisráðuneytisins. Þrátt fyrir þetta hafa þessar fyrirætlanir ekki gengið eftir. Auk þess að dregið hafi úr samstarfinu var á árunum 2008–2015 verulegur samdráttur í fjárframlögum ríkisins til stofnananna. Úr því var lítillega bætt á árinu 2016, en sú þróun sem varð á þessu tímabili gengur þvert á byggðastefnu stjórnvalda og sóknaráætlanir landshlutanna. En vonandi horfum við fram á bjartari tíma nú.

Það er því álit flutningsmanna að nú væri gott tækifæri fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra og sveitarfélögin að staldra við og meta reynsluna af starfi náttúrustofanna síðustu 20 árin. Liður í slíkri vinnu gæti verið að fara yfir hvort hagkvæmt gæti reynst að náttúrustofur tækju formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú á höndum. Mikilvægt er að halda áfram að styrkja samstarf náttúrustofanna og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best. Samhliða gætu sveitarfélög metið hvort skynsamlegt væri að fleiri sveitarfélög ættu aðild að náttúrustofum og hvort hækkun framlags sveitarfélaga til starfsins gæti haft margfeldisáhrif í samfélaginu.

Á síðustu árum hafa víða um land byggst upp þekkingarsetur, eins og fram er komið, sem starfa á sviði náttúrufræða. Því er einnig mikilvægt að í vinnu starfshópsins verði horft til þess hvernig samstarf náttúrustofa og setra geti styrkt starf beggja.

Hæstv. forseti. Eins og áður sagði er mikil deigla í náttúru- og umhverfisvernd á Íslandi, m.a. vegna nýrra loftslagsmarkmiða og vaxandi ferðamennsku, og því mikilvægt að fara yfir þessi mál á þeim tímapunkti.

Þá hef ég lokið við að rekja helstu staðreyndir varðandi mikilvægi þessarar tillögu og legg til að hún gangi til umhverfis- og samgöngunefndar til frekari umfjöllunar.