144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að orð hv. þm. Róberts Marshalls, um að okkur sé sniðinn þröngur tímarammi, eru því miður til marks um það að nefndin verður að vinna mjög hratt og örugglega og samtalið þarf að eiga sér stað fyrr en ella. Ég hefði kosið lengri tíma, svo ég sé hreinskilinn, en virði þau tímamörk sem sátt náðist um og stjórnarandstaðan lagði mikla áherslu á.

Ég vil þó segja eitt: Hér hefur verið nefnt að menn hefðu viljað að náttúruverndarlögin tækju gildi óbreytt en þær upplýsingar komu fram í nefndinni að á lögunum væru einfaldlega svo margir gallar, ekki bara efnislegir heldur líka tæknilegir, sem næðu til nánast hvers einasta ákvæðis. Ég er þeirrar skoðunar að ef lögin hefðu orðið að veruleika þá hefði öll sú góða vinna sem unnin var í umhverfisnefnd og (Forseti hringir.) undir stjórn Marðar Árnasonar, fyrrverandi þingmanns, eyðilagst. Það viljum við alls ekki sjá. (Gripið fram í.)