150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

staða sveitarfélaga.

[10:50]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil hann þannig að það sé ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að bæta í jöfnunarsjóð og styrkja sveitarfélögin í þeirri stöðu sem þau eru í núna. Ég efast reyndar ekki um að hæstv. ráðherra sé mjög velviljaður sveitarfélögunum. En þó að ýmislegt hafi verið gert, eins og ráðherra nefndi, þá er það einfaldlega ekki nóg í því alvarlega ástandi sem víða blasir við um landið í dag. Þörfin er brýn, eins og sést á 32% aukningu á fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu frá borginni. Það er mikilvægt að ríkið geri allt sem það getur til að styðja við sveitarfélögin og það má ýmislegt fleira gera til viðbótar við eflingu jöfnunarsjóðs. Mun ríkisstjórnin t.d. styðja sveitarfélögin í að bæta í framkvæmdir, til að mynda með því að framlengja endurgreiðslu virðisaukaskatts til sveitarfélaga vegna framkvæmda viðhaldsverkefna? Mun ríkisstjórnin styrkja sveitarfélögin í að ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá? Þá má ekki gleyma því að það virkaði vel í síðasta hruni að nýta uppbyggingarsjóði landshlutanna til að skapa ný og fjölbreytt störf um allt land. Mun ríkisstjórnin bæta fjármagni í sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóði landshlutanna?