150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

staða sveitarfélaga.

[10:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil bara ítreka að við höfum ekki slegið neinar leiðir út af borðinu og allt það sem hv. þingmaðurinn nefndi eru hlutir sem við höfum verið að vinna með sveitarfélögunum. Við jukum m.a. fjárframlög til sóknaráætlana í vor. Við horfðum sérstaklega á viðkvæma hópa og komum með talsverða upphæð í það. Félagsmálaráðuneytið hefur m.a. verið að útfæra stuðning við tómstunda- og íþróttastarf barna, m.a. í samstarfi við menntamálaráðuneytið, og þannig má lengi telja.

Við eigum einfaldlega í þessu samtali og það er mjög mikilvægt. Ég tek undir með þingmanninum að það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin geti staðið undir lögbundinni nauðsynlegri þjónustu, jafnvel þó að við séum í dýpstu kreppu í 100 ár. Við megum ekki gleyma því að það er staðan. Það er ekkert óeðlilegt að sveitarfélögin, eins og allir aðrir í samfélaginu, verði fyrir áföllum þess vegna. En það er mismunandi hvernig þau geta tekist á við þann vanda. Við erum að reyna að greina verkefnin og það skýrist á næstu dögum hvernig það kemur út.