150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[11:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Á þessu ári hefur Alþingi samþykkt breytingu á fjármálastefnu tvisvar sinnum. Breytingin sem samþykkt var í gær gefur til kynna að ríkisstjórnin ætli að dreifa viðbrögðum sínum jafnt til næstu þriggja ára. Horfur í efnahagsmálum eru slæmar og flestir spáaðilar sammála um að við horfum fram á erfiðan vetur þar sem atvinnuleysi muni aukast. Hagfræðingar eru sammála um að aðgerðir til að mæta samdrættinum verði að koma fram núna. Að dreifa þeim á næstu ár dregur ekki bara úr áhrifum þeirra núna heldur eykur líkur á verðbólgu þegar atvinnulífið tekur við sér aftur. Fyrirtækin þurfa hreinlega á súrefni að halda til að viðhalda ráðningarsamböndum sínum við launþega. Fyrirtækin og sveitarfélögin þurfa möguleika og hvata til að ráða til sín fólk til að viðhalda virkni fólksins. Ný og endurbætt fjármálastefna ríkisstjórnarinnar er ekki skýr um planið. Allt sem er hvetjandi fyrir störf er af hinu góða. Það er ekki bara það mannlega í stöðunni heldur ábyrgt efnahagslega. Það þarf að auðvelda fólki að skapa sér tækifæri og tekjur, lækka álögur á vinnuveitendur og skapa fyrirtækjum hvata til þess að ráða fólk. Ef ríkisstjórnin er að veðja á að áfallið sé tímabundið, eins og fjármálaráðherra segir sjálfur, hvers vegna þá að draga aðgerðir á langinn? Hvers vegna ekki að bregðast hraðar við? Hvers vegna lagði ráðherra fram fjármálastefnu sem var ekki framþyngri en raun ber vitni? Eru skref ríkisstjórnarinnar einfaldlega ekki of lítil, taktur þeirra of hægur?