150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður hræra saman í eina skál mjög ólíkum hlutum; annars vegar því hvernig við beitum lögum um opinber fjármál til þess að veita aðhald og auka aga við stjórn opinberra fjármála, sem er það sem fjármálaráð var að tjá sig um og lesið var um hér í ræðustól, og hins vegar því hvaða einstöku aðgerðir það eru. Við erum ekki beint að fjalla um þær í fjármálastefnunni, í þessari endurgerð, hvaða einstöku aðgerðir það eru. Ég heyri hv. þingmann bara ekki koma með eitt einasta mál hingað upp í ræðustól. Ekki frekar en maður gat fundið eitt einasta mál í nýrri efnahagsstefnu Viðreisnar, ekki eitt einasta mál er tiltekið, [Háreysti í þingsal.] það er bara tómt blað. Þar er fyrirsögnin að um efnahagsstefnuna sé að ræða og að eitthvað þurfi að gera, en það er ekkert innihald. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Við köllum eftir því, þegar menn koma og segja að fara þurfi aðra leið, að menn lýsi þá leið upp og (JVS: Lestu tillöguna.) leggi á borðið raunverulegar tillögur sem eru þá valkostur en standi ekki (Forseti hringir.) hér og gagnrýni það sem verið er að gera með almennum orðum sem hafa nákvæmlega ekkert innihald.