150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:09]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér var afgreitt stórt og gott mál í gær um hlutdeildarlán. Á síðustu metrunum komu inn ábendingar um að kannski þyrfti að færa inn heimild fyrir reglugerð til þess að kveða á um að umsækjendur með samþykkt kauptilboð nytu forgangs. Við vorum í nefndinni búin að fá drög að reglugerðum þar sem fram kom hvaða fylgigögn þyrftu að fylgja umsögnum svo allt stæðist samkvæmt lögum, en að það þyrfti kannski að skerpa á því, að fram kæmi að þeir nytu forgangs sem væru með samþykkt kauptilboð, því að það vantaði inn í lögin. Þá væri auðveldara að fara yfir umsóknir með þessari heimild og meiri vissa væri um kaup sem gengju eftir. Segjum að 40 íbúðir væru í boði (Forseti hringir.) og 30 manns sæktu um. (Forseti hringir.) Þá væri öruggt samkvæmt reglugerð að þeir sem væru með samþykkt kauptilboð nytu forgangs (Forseti hringir.) við útdeilingu hlutdeildarlána. Það var kannski (Forseti hringir.) handvömm að ekki var búið að ræða það hérna. En ég er (Forseti hringir.) þegar búin að senda nefndinni póst (Forseti hringir.) um boð á fund (Forseti hringir.) til að ræða þetta mál.