150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Þegar sagt var á fundi þingflokksformanna að breytingartillögur kæmu við 3. umr. sem væru tæknilegs eðlis gerðum við ekki athugasemdir við það. Satt að segja fór um þingheim þegar framsögumaður málsins fór í atkvæðaskýringu, og þetta kemur fram við atkvæðagreiðsluna. Ég held að það sé alveg dagljóst að þarna voru mikil mistök gerð og það grefur undan trausti á milli manna ef það stendur ekki sem búið er að segja. Við þingflokksformenn sögðum ekki: Heyrðu, við erum ekki alveg viss um að við eigum að trúa því að þetta sé tæknilegt. Komdu með þetta og sýndu okkur. Við treystum því að svo væri. En svo var ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna hlýtur að koma fram frumvarp sem fellir þetta bara úr gildi því að annars erum við með opin augun einhvern veginn að sturta löggjafarsamkomunni niður, (Forseti hringir.) sem á auðvitað að fá upplýsingar áður en atkvæðagreiðsla fer fram.