150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[14:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er margt mjög gott og mikilvægt í þessu máli og þess heldur finnst mér miður að ríkisstjórnin skuli ekki tilbúin til að auka enn frekari fyrirsjáanleika, traust og öruggara umhverfi, sérstaklega fyrir þá hópa sem eiga hvað erfiðast. Í þeim hópi mun fjölga, sá hópur mun stækka. Meiri bragur hefði verið á því ef við hefðum til að mynda náð að afgreiða tekjutengingu atvinnuleysisbóta til tólf mánaða en ekki bara sex. Þetta er ekki yfirboð heldur einfaldlega byggt á þeim rökum og þeim ábendingum sem koma fram í umsögn fjármálaráðs en ekki síður á því að Seðlabanki Íslands segir að niðursveiflan verði snörp og erfið en hún taki yfir ákveðinn tíma.

Enn og aftur finnst mér, þó að velvilji sé mikill hjá ríkisstjórninni, hún vera í plástursaðferðinni í staðinn fyrir að sýna framsýni og dug og nota hvert tækifæri til að taka utan um fólk og veita því ákveðna vissu til lengri tíma en ekki í þennan skamma tíma, (Forseti hringir.) alltaf mánuð og mánuð í senn.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með þessu máli (Forseti hringir.) en ég vonast til þess að við náum að vinna enn betur á næstu misserum fyrir nákvæmlega þennan hóp sem mun eiga hvað erfiðast.