150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

strandveiðar.

[10:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég tiltaka að strandveiðiflotinn hefur aldrei nokkurn tímann dregið jafn mikið að landi og á því strandveiðitímabili sem lauk í lok ágúst. Þegar rætt er um hvort ekki sé mögulegt að flotinn geti veitt það sem ekki veiddist í fyrra þá ber það vott um að menn setji ekki hlutina í heildarsamhengi. Ákvörðun í lögum um fiskveiðistjórnarkerfið er þannig að Hafrannsóknastofnun kemur með ráðgjöf til sjávarútvegsráðherra. Hann tekur ákvörðun um nýtingu heildarafla og þegar sú ákvörðun liggur fyrir eru 5,3% tekin af þeirri ákvörðun og sett í svokallaða potta, 5,3%. Svo er restinni deilt út á meðal handhafa aflaheimilda, sem eru þá þessi 94,7%. Nýtingin á þessum 5,3% potti á þessu fiskveiðiári stefnir í að verða neikvæð upp á 2.759 tonn þannig að það stendur ekkert eftir í pottinum.

Ákvörðunin sem menn standa frammi fyrir núna — og ég er bara núna að sjá frumvarp hv. þingmanna Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur — snýst um það: Hvaðan á að taka þessar heimildir? Hvaðan eiga þær að koma? Fiskveiðiárið er nýhafið. Það hófst 1. september. Menn eru byrjaðir að vinna á grunni úthlutunur sem gerð var í vor þannig að það eru ótal þættir sem hér liggja undir.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að fylgja ráðgjöf vísindamanna. Ég hef ekkert betra til að styðjast við. (JÞÓ: Ekki í grásleppunni.) Jú, jú, nákvæmlega. Þess vegna gengum við til þess verks að stöðva grásleppuveiðar vegna þess að við vorum (Forseti hringir.) komin upp í hámark vísindalegrar ráðgjafar.