150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað alvanalegt að flutningsmenn mála komi með einfaldar breytingartillögu á tæknilegum atriðum á milli 2. og 3. umr. og hefur verið til þessa hluti af gæðaeftirliti þingsins. Þetta er yfirleitt atriði sem uppgötvast í skjalalestri og þarf að laga til að lögin haldi vatni. Í trausti þess held ég að við höfum flest ýtt á græna takkann í gær. En ef verið er að lauma efnislegum breytingum inn undir því yfirskini að vera tæknilegar breytingar, er það traust brostið. Það þykir mér miður. Framsögumaður málsins talar um að hittast og ræða og leysa málið einhvern tímann bráðum. Þetta eru lög sem voru samþykkt í gær. Þetta minnir mig á lífeyrissjóðafrumvarpið sem við erum með í höndunum hérna, og á að ræða fyrir helgi, þar sem efnahags- og viðskiptanefnd gafst ekki tækifæri til að skoða öll atriði og leggur til að það verði gert á næsta löggjafarþingi. Það er frumvarp sem á að ná utan um hlutafjárútboð sem á sér væntanlega stað fyrir næsta löggjafarþing. Þannig að ég spyr mig, herra forseti: Erum við farin að vinna hérna með einhverjum tímaflökkurum?