150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[14:10]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. velferðarnefnd fyrir alla vinnuna í þessu máli og að það skuli vera hér til atkvæðagreiðslu. Eins og fram hefur komið í umræðum um málið er þetta ekki fyrsta aðgerðin sem við ráðumst í gagnvart vinnumarkaðnum og verður ekki heldur seinasta aðgerðin. Í þeirri óvissu sem við lifum nú eigum við mjög erfitt með að gera nokkrar áætlanir vegna þess að við vitum ekki hvað gerist á morgun hvað varðar veiruna, smitvarnir og annað slíkt. Það er einn mesti styrkleiki ríkisstjórnarinnar að vera tilbúin til að bregðast hratt við, tilbúin til að bregðast við aðstæðum og tilbúin til að vinna með þeim aðilum sem þetta hefur hvað mest áhrif á. Það á bæði við um atvinnulífið og eins við verkalýðshreyfinguna og stéttarfélögin.

Þegar þetta mál var kynnt sagði ég að það væri skref sem við þyrftum að stíga núna. Það eru margar góðar aðgerðir í þessu en við munum þurfa að fara í áframhaldandi samtal og samvinnu á næstu vikum við aðila vinnumarkaðarins um næstu skref. (Forseti hringir.) Við munum þurfa að koma með frekari aðgerðir á haustdögum, í október, þegar þing kemur saman.