131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:40]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Vitur kona sem dásamaði uppgang og fegurð Íslands fyrir skömmu sagði eitthvað á þá leið að Ísland væri ilmvatn ævintýranna. Já, það er á mörgum sviðum sem er mikill uppgangur og miklar breytingar á Íslandi. Það á líka við íslenskar sveitir.

Ég tók við starfi landbúnaðarráðherra fyrir fimm og hálfu ári. Þingið hefur oft rætt við mig á þeim tíma. Ég tók við þessu starfi af bjartsýni og trú. Ég hafði mikla trú á íslenskum landbúnaði og nýjum tækifærum sveitanna og talaði fyrir þeim. Umræðan í þinginu og víðar snerist um að ég sem landbúnaðarráðherra yrði að beita mér fyrir því að koma með fjármagn frá ríkinu til að kaupa upp bújarðir, leysa bændur undan ánauð þannig að þeir gætu fengið verð fyrir eignir sínar. Sem sé, ríkið átti að kaupa bújarðirnar. Þá þótti gamaldags að bera nafnið bóndi. Í dag er það heiðursnafn og tíska margra í samfélaginu.

Ríkisstjórnin gerði nýja búvörusamninga við kúabændur, við sauðfárbændur, veitti stuðning til hestamennskunnar og gerði stórbrotna áætlun um skógrækt með samþykki þingsins. Sveitirnar fóru að rísa til sóknar á ný. Staðan í dag er sú að mikil nýsköpun er í íslenskum sveitum. Í áratugi hefur ekki verið jafnmikil nýsköpun í íslenskum sveitum. Búgreinarnar fjárfesta og bændurnir byggja upp, stækka og styrkja bú sín, sem þóttu of lítil til að lifa af þeim til að unga fólkið vildi taka við búunum. Sársaukinn blasir auðvitað við og við finnum til þegar góðar bújarðir hverfa úr hefðbundnum landbúnaði sem ekki þarf lengur á að halda undir matvælaframleiðslu. Búin urðu að stækka og þar með fækkar þeim sem eru í hefðbundnum landbúnaði.

En góðri þróun og mikilvægri fylgja alltaf ókostir og gallar eins og nefnt hefur verið í þessari umræðu. Ég fagna hins vegar því að Íslendingum þykir í dag vænt um sveitina sína. Þeir eiga sumarhús í náttúrunni, kaupa sér jarðir, flytja þangað úr þéttbýlinu, gerast hestamenn, skógræktarmenn, ferðaþjónustubændur eða vinna í bæjarfélögunum. Þetta er gott fólk sem styrkir lífið í sveitinni, kemur með nýja strauma inn í sveitarfélögin, gerist góðir íslenskir sveitamenn þótt þeir mjólki ekki kýr og fóðri ekki ær. Þeir fást við margt annað sem styrkir búsetuna. Þetta er þróun sem við stöndum frammi fyrir.

Ég hef haft uppi varnaðarorð um hátt kvótaverð og skuldsetningu yngri bænda. Ég hef talað um búskapinn í vel reknum fjölskyldubúum og gerði það síðasta vetur hér og víða. Ég hef á Alþingi og víðar verið snupraður og fengið að heyra að ég væri rómantískur, gamaldags landbúnaðarráðherra sem skyldi ekki kall hins nýja tíma. Gott ef vinur minn, Sigmund, teiknaði mig ekki á skinnskóm á fullri ferð með landbúnaðinn inn í torfbæina á nýjan leik.

En nú er umræðan önnur. Hinn hefðbundni landbúnaður er í mikilli þróun. Mörg ný tækifæri blasa við í íslenskum sveitum. En breytingarnar eru, eins og ég hef oft sagt, sársaukafullar. Við finnum til í stormum samtíðarinnar og það er sárt að sjá góðar bújarðir hverfa. Við getum brugðið okkur austur fyrir fjall og farið austur í Ölfus í stutta ferð. Þegar ég fór til þings voru þar fimmtán kúabú en nú er þar eitt. Þó er búið á öllum jörðunum og á öllum jörðunum býr gott fólk. Það hefur skapað sér ný tækifæri og nýja atvinnu. Ölfusið er fullbyggt. Aðrir hafa fengið tækifærið til að mjólka kýrnar og hugsa um sauðféð. Þannig hefur sú þróun verið og ég efast ekki um að hún er mikilvæg.

Það má kannski segja, eins og maðurinn sagði: Kýrin keppir ekki við það að sofa út á sunnudögum. Þess vegna er Ölfusið of nærri þéttbýlinu og stórborginni. Það gefur mönnum önnur tækifæri til þess að lifa þar með fjölskyldum sínum. Þetta eru staðreyndirnar.

Ég segi við spurningum hv. þingmanns: Það eru 4.200 lögbýli í ábúð af 6.400 jörðum. (Forseti hringir.) Þar af eru 2.500 með framleiðslurétt. Jarðirnar eru sem betur fer í eigu fjölskyldnanna og einstaklinganna (Forseti hringir.) að stærstum hluta. Ég tel sjálfsagt að fara yfir spurningar hv. þingmanns með þingheimi og í ráðuneyti mínu mun ég gera það (Forseti hringir.) en ég mun ekkert gera sem stöðvar þessa þróun. Ég tel hana á margan (Forseti hringir.) hátt hafa verið gagnlega.