131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[11:00]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Landbúnaður á Íslandi hefur verið bundinn í kvaðir í mjög langan tíma. Afleiðingin er mjög mikil fátækt í þeirri grein. Við höfum losað um þessar kvaðir í mjólkurbúskapnum. Þar hefur verið frjálsara framsal, enda hefur hagur þeirra bænda batnað og þeir hafa getað selt eignir sínar og framleiðslurétt sinn.

Hagur sauðfjárbænda er enn þá bundinn í höftum og þar er fátæktin mest í landinu. Því þarf að breyta og leyfa frjálst framsal þar líka.

Áður fyrr þegar hallarekstur bænda leiddi til þess að þeir flosnuðu af jörðum sínum þá horfðum við á tómar gluggatóftir á eyðibýlunum og það er enn svo um allt land. Það sem er að gerast núna er að bændur hafa getað selt framleiðslurétt sinn og landið annars vegar og horfið frá sínum hallarekstri með sæmd, hafa getað horfið inn í þéttbýlið eða til annarra starfa með sæmilegan lífeyri. Það var ekki svo. Þetta er mikil breyting og ég held að það sé, að öðrum ólöstuðum, hv. þingmanni Drífu Hjartardóttur aðallega að þakka hve miklu var breytt síðasta vor í jarðalögunum.

Það eru breyttir tímar. Margir borgarbúar vilja búa úti á landi og þeir búa þar fyrst að sumarlagi en þeir munu seinna búa þar að vetrarlagi líka vegna þess að bættar samgöngur og bætt fjarskipti gera mönnum kleift að vinna hvar sem er. Þetta verða miklar breytingar sem við horfum fram á. Það er hins vegar spurning hvort beingreiðslurnar séu ekki orðnar of háar þegar fyrirtækin eru orðin mjög stór, ef það er orðið þannig að það sé mjög arðbært að reka t.d. mjólkurbú. Auðvitað leita menn að hagkvæmni stærðarinnar.

Ég bíð eftir því, herra forseti, að sama þróun eigi sér stað hjá sauðfjárbændum þannig að þeir geti líka horft framan í fólk þegar þeir þurfa að bregða búi og þurfi ekki að horfa fram á fátækt.