131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[11:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er til háborinnar skammar að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli leyfa sér í umræðum utan dagskrár um jarðasölumál að byrja ekki að svara spurningum hv. fyrirspyrjanda fyrr en rauða ljósið á luktinni fer að loga. Við þingmenn viljum skiptast á skoðunum við hæstv. ráðherra um sjónarmið hans. Hann gerði ekki tilraun til að svara einni einustu spurningu í þeim ræðutíma sem honum var ætlaður. Þetta er til skammar og lýsir auðvitað því hugarfari sem hæstv. ráðherra er haldinn í þessu máli.

Hvað sagði hæstv. ráðherra í lokaorðum sínum? Við megum ekkert gera sem stöðvar þessa þróun, ég tel hana mjög gagnlega, sagði hæstv. ráðherra. Meinar hann það í alvöru að það sé mjög gagnlegt fyrir þróunina í landbúnaði að auðmenn og fjárfestingarfyrirtæki fjárfesti í kvótanum í mjólkurframleiðslunni? Er það jákvæð þróun? Þetta sagði hæstv. ráðherra.

Sannleikurinn er auðvitað sá að með þeirri þróun sem farin er í gang breytist mjög margt í sveitunum. Það fyrsta sem fólk verður vart við þegar einkaaðili er búinn að kaupa jörð er að það kemur keðja og skilti á veginn sem liggur heim að jörðinni og þar stendur: Einkavegur. Með öðrum orðum aðgengi þjóðarinnar um landið verður takmarkað. Þetta hefur gerst á jaðarsvæðum þar sem jarðir hafa verið keyptar og ganga núna kaupum og sölum í auknum mæli. En nú er nýmæli að það er farið að gerast í auknum mæli á blómlegum bújörðum. Þær eru keyptar upp, jarðir eru girtar af og það kemur stórt skilti: Einkavegur. Þetta hamlar gegn sjálfbærri þróun. Þetta hamlar gegn stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Sjálfbær þróun byggir að stórum hluta á því hvernig búsetu í landinu er háttað og það verður að gæta að því að landið sé aðgengilegt fyrir einstaklinga sem vilja búa á landinu. Við höfum talað um að nauðsynlegt sé að auðvelda kynslóðaskiptin í landbúnaði. Lykillinn að því er að jarðir og framleiðsluréttur sé til staðar og það verði ekki svo óheyrilega dýrt að það komi í veg fyrir að ungt fólk geti hafið búsetu í sveitunum.