131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:10]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við gætum aldeilis skipst á skoðunum í allan dag en um margt erum við sammála.

Ég vil vara þingmenn við því að draga upp of svarta mynd af búsetuskilyrðum úti á landi því það er mjög jákvætt að búa á landsbyggðinni. Það er mjög barnvænt samfélag, nærsamfélagið er mjög gott og ég vara þingmenn við því að draga upp of dökka mynd, því hver vill flytja í það sveitarfélag þar sem allt er að fara til fjandans? Það er margt gott að gerast úti á landi en auðvitað má margt gera betur og það eru áform um að gera það.

Ég vil minna á eitt mjög jákvætt sem hefur verið gert til að bæta búsetuskilyrðin. Það eru símenntunarstöðvarnar og fjarnámið, jöfnun námskostnaðar og jöfnun húshitunarkostnaðar þannig að það hefur margt verið gert.

Hvað varðar skattheimtu og sveitarfélögin þá held ég að það sé kominn tími til að sveitarfélögin hafi sjálf ákveðið lögræði yfir því hvernig þau haga skattheimtu sinni. Þau gætu þá gert það eftir því sem þau vildu og í ákveðinn tíma, kannski haft hærri skattheimtu í nokkur ár ef á þyrfti að halda og síðan lækkað skattana aftur. En það er umhugsunarvert að öll þessi sveitarfélög nýti ekki skattstofna sína. Mér finnst það verulegt umhugsunarefni þegar sveitarfélögin kalla eftir meira fjármagni frá ríkinu.