131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:38]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir yfirferð hans. Við höfum oft verið samstiga í ýmsu í umræðum um byggðamál.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann út í nokkuð sem snýr að rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Í því dæmi sem ég tók áðan sat hv. þm. sem aðalmaður hér á þingi, þ.e. við skattkerfisbreytinguna 2001 sem ég hef gert að umtalsefni nokkrum sinnum þar sem tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður úr 30% niður í 18%, eignarskatturinn lækkaður að mig minnir um helming þá en tryggingagjald fyrirtækja hækkað. Þetta hafði þær afleiðingar í för með sér sem ég sagði áðan og vil segja núna rétt til upprifjunar að fyrirtækjarekstur í Reykjavík og á Reykjanesi, þeim tveimur skattumdæmum, hagnaðist um 2,7 milljarða kr. Fyrirtækjarekstur í hinu gamla kjördæmi Vesturlandskjördæmi hagnaðist á þessum sama tíma og með nákvæmlega sama útreikningi og sama samanburði um 4 millj. kr. Telur hv. þm. þetta eðlilegt og að þarna sé gætt jafnræðis milli atvinnurekstrar á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu?