131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:26]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til þess að spyrja hv. þm. hvort hann telji að það sé viðsættanlegt vegna þeirra mannvirkja sem hann taldi hér upp og aðrir hafa talið upp áður, þ.e. ef Sundabraut yrði notuð sem gjaldstofn fyrir veggjöld, að þeir sem koma norðan og vestan að höfuðborginni borgi fyrir það að keyra yfir samgöngumannvirkin eða undir þau eins og göngin, en að þeir sem koma að sunnan eða austan borgi ekki neitt.

Ég held að það sé ekki viðsættanlegt að hér sé höfð uppi stefna í gjaldtöku af samgöngumannvirkjum sem mismunar með þessum hætti. Það eru mjög dýr samgöngumannvirki annars staðar líka, m.a. er verið að byggja upp veginn til Keflavíkur, Reykjanesbrautina. Engum hefur dottið í hug að það ætti að fara að innheimta gjald vegna þess. Það er verið að byggja hér upp samgöngumannvirki á leiðinni þaðan og inn í borgina. Menn hljóta að þurfa að svara þessu.

Síðan langar mig til að spyrja: Hverja væri hugsanlega verið að svíkja með því að breyta frá þessari framkvæmd hvað varðar innheimtuna, þá sem hafa þennan samning? Ég geri ekki ráð fyrir að gengið yrði þannig frá málum við þá aðila að þeir yrðu sviknir af samningum sínum. Hverjir eru það þá sem væri verið að svíkja og hvaða tiltrú væri svo sem verið að breyta með því þó menn leystu þennan samning til sín með einhverjum hætti? Ég átta mig alls ekki á því. Það verður þá það eina að það væri vegna þess að menn hefðu tekið þessa framkvæmd fram fyrir í vegáætlun (Forseti hringir.) að hv. þm. ætti við það.