132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það var fróðleg ræða hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar en þó enn þá fróðlegra andsvar hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar sem gekk aðallega út á stefnu Samfylkingarinnar og þann misskilning Magnúsar Þórs að hún hefði tekið einhverjum breytingum í ræðu formanns Samfylkingarinnar á fundi útgerðarmanna um daginn. Það verður að virða hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni það til vorkunnar að hann var ekki einn um þann misskilning. Sjálfur hæstv. sjávarútvegsráðherra úr sama flokki og formaður sjávarútvegsnefndar, sem hér ekur sér eftir sætaröðunum, hafði líka uppi þann misskilning þannig að það er ekki leiðum að líkjast hjá Magnúsi Þór Hafsteinssyni, góðvini sínum Einari K. Guðfinnssyni.

Staðreyndin er sú að að sjálfsögðu erum við að reyna að hefja sjávarútvegsumræðuna að nýju eftir það kuldakast sem hún lenti í eftir síðustu kosningar, og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var reyndar að lýsa. Það gerði hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem ekki er hér stödd, formaður Samfylkingarinnar, á þessum fundi með því að lýsa enn og aftur grundvallaratriðunum í stefnu Samfylkingarinnar og að ég hygg miklu víðari hóps um allt land og gerir þar með tilraun til þess að kalla á umræðu um grundvallaratriðin en ekki um einstök útfærsluatriði. Það var það sem við lentum í í kosningabaráttunni að þar var efast um og menn toguðu fram og aftur einstök útfærsluatriði, bæði í stefnu okkar og stefnu Frjálslynda flokksins. Ég man nú ekki eftir að fleiri hafi haft stefnu í sjávarútvegsmálum þá, aðrir en stjórnarliðar.

Hver eru þau grundvallaratriði? Þau eru að fiskimiðin og auðæfin í sjónum séu þjóðareign. Þessa þjóðareign verði notendurnir að borga gjald fyrir og stjórnvöld hljóti, fyrir hönd þjóðarinnar, að ákveða á hverjum tíma hvernig það skuli vera skipulagt. Þetta er ósköp einfalt. Formaður Samfylkingarinnar minnti á, á sama hátt og síðasti formaður gerði hjá okkur sem hefur sömu stefnu í sjávarútvegsmálum og núverandi formaður, að það eru fleiri auðlindir sem eiga að teljast í þjóðareign og við verðum auðvitað að fara heildstætt yfir þessi mál.

Ég var um helgina á ráðstefnu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þjóðkirkjunnar, Landverndar og fleiri samtaka um vatnið. Nú er einmitt komið vatnalagafrumvarp inn í þingið sem er alveg andstætt því sem við sögðum flest á þeirri ráðstefnu, nefnilega að vatnið ætti að vera í þjóðareign, það væri auðlind af því tagi, og á því ætti ekki að vera einkaréttur þó að vissulega kæmi til greina að á því sé tiltekinn nýtingarréttur. Þetta er að vissu leyti sambærilegt þó að sama kerfið eigi ekki við. Að þessu leyti kannast ég ekki við það og leita þá eftir því að menn komi með betri rök en að fleygja út í loftið að Samfylkingin hafi breytt um stefnu á einhvern hátt.

Sjálfur stend ég við þá leið sem við lögðum fram, ég skal ekki segja til um ár eða einingar, sem er fyrningarleiðin en ég tel hana fullkomlega eðlilega. Ég tek undir með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össuri Skarphéðinssyni, hv. þingmönnum, að ef menn hafa aðrar leiðir sem uppfylla sömu kröfur er ég reiðubúinn að skoða þær.

Það er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um þetta að við erum að tala um auðlindastjórnina, við erum að tala um hvernig auðlindinni er réttlátlega fyrir komið gagnvart þjóðinni, eiganda hennar, og hvernig hagfræðin í kringum hana á að vera. Við erum ekki með því að tala, a.m.k. að mínum skilningi, um það umræðuefni sem Magnús Þór Hafsteinsson hv. þm. og aðrir flytjendur þessa máls um færeyska kerfið eru að fiska eftir. Sóknarmark og aflamark eru tvær leiðir við úthlutun gæða og það eru til alls konar millileiðir í því eins og við þekkjum, ýmsar undirtegundir og blöndur af þessu. Flestar þessar leiðir eru þannig lagaðar, a.m.k. sóknarmarkið í sinni hreinustu mynd, að tiltölulega auðvelt er að koma við gjaldtöku og hagrænni auðlindastjórn. Það er bara spurning um val og það á að ráðast af öðrum ástæðum.

Ég leyni því ekki að síðan ég fór að hugsa um sjávarútvegsmál þá hef ég verið aflamarksmaður. Það var kannski svona síðla á níunda áratugnum sem ég komst aðallega inn í þau mál og komst í gegnum þá miklu þoku sem mér fannst alltaf að gjósa upp þegar menn ræddu sjávarútvegsmál. Síðar skildi ég af hverju, það var vegna þess að menn blönduðu öllu saman. Ég var aflamarksmaður vegna þess að mér fannst það rökrétt kerfi. Mér fannst það hentugt og þægilegt. Og vegna þess að það átti að geta verndað fiskinn í sjónum, átti að vera fiskverndarkerfi. Það var það, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson minnti á, sem vakti fyrir mönnum 1983 og 1984 þegar kerfið var sett á. Það var ekkert annað, ástæðan var bara sú. En ég verð að viðurkenna að sá árangur sem þetta kerfi hefur náð, og nú er ég ekki að tala um veiðigjaldið eða hagstjórnina, er ekki nægilegur, hann er ekki sá sem við bjuggumst við sem studdum aflamarksleiðina. Menn hafa sagt, bæði fræðimenn og stjórnmálamenn, að það sé ekki marka vegna þess að það séu svo margar undantekningar, það sé ekki hreint kerfi o.s.frv. Það er ekki að marka núna, hvaða ár er það? Það er ekki að marka á tuttugasta og öðru ári kerfisins. Hvað eigum við að lifa lengi við að það sé ekki að marka?

Ég hef þess vegna linast í stuðningi mínum við aflamarkskerfið, um tæknilegan hluta kvótakerfisins, í seinni tíð. Það er ekki þar með sagt að ég sé tilbúinn að taka undir tillögur um önnur mál en ég hef í þessu samhengi litið til Færeyja með spurn og ég hef líka spurt sjálfan mig að því hvort einhver útgáfa af sóknarmarkinu kunni að henta okkur betur. Aflamarkskerfið gerir nefnilega um of ráð fyrir því að við vitum um allt sem í sjónum býr, að sjórinn sé fyrir okkur eins og lítið baðkar þar sem við getum mælt með hitamælum og einhverjum tækjum fiskifræðinga eða bifvélavirkja hvað er að gerast. Það er ekki svo, það hefur ekki reynst vera þannig. Ef til er sóknarmarksleið eða einhvers konar færeysk millileið eða blanda sem betur samsvarar líffræði sjávarins þá eigum við að athuga hana vegna þess að aflamarkið hefur ekki fullnægt okkur hingað til.