135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:03]
Hlusta

Flm. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aukna hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum. Meðflutningsmenn mínir að þessari tillögu eru hv. þingmenn Birkir J. Jónsson, Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka hið fyrsta upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum.“

Sveitarfélögin eru, eins og við vitum, mjög misjafnlega stödd fjárhagslega. Undanfarna daga hafa hv. þingmenn hitt marga sveitarstjórnarmenn um allt land þar sem m.a. þessi mál hafa verið rædd, þ.e. fjárhagsleg afkoma sveitarfélaganna og rekstur þeirra.

Á síðustu árum hefur sumum sveitarfélögum reynst erfiðara og erfiðara að halda uppi sinni lögbundnu þjónustu og starfsemi. Þróunin hefur verið sú að útsvarstekjur og annað hefur verið að breytast en það er ekki einfalt að ræða þetta vegna þess að staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn, tekjustofnar þeirra og afkoma er mjög mismunandi. Staða svipaðra sveitarfélaga á svipuðum svæðum getur jafnvel verið mjög misjöfn, það er engin ein lína í því máli.

Því miður er ekki að sjá núna að afkoma margra sveitarfélaga sem hafa átt erfitt muni batna á næstu mánuðum og missirum vegna þess að eftir að ákvörðun var tekin um að skerða veiðiheimildir í þorski er alveg borðleggjandi að mörg sveitarfélög, margar sjávarbyggðir muni verða fyrir þrengingum, muni verða fyrir tekjumissi, þannig að segja má að komin sé upp ný staða að þessu leyti í mörgum sveitarfélögum.

Tekjustofnar ríkisins hafa verið að þróast á undanförnum árum. Við sjáum það t.d. í fjárlagafrumvarpinu í þeim upplýsingum sem þar liggja fyrir að fjármagnstekjuskattur hefur vaxið gríðarlega mikið á örfáum árum. Þetta er skattur sem var ekki innheimtur fyrir u.þ.b. tíu árum en á næsta ári er gert ráð fyrir því að skili hann ríkissjóði yfir 30 milljörðum. Samband ísl. sveitarfélaga hefur ítrekað ályktað um að sveitarfélögunum beri að fá hlutdeild í þessum skatti að einhverju leyti. Það er eitt af því sem við bendum á í greinargerð með þessari tillögu að farið verði yfir það sérstaklega hvort það sé rétt að sveitarfélögin fái sérstaka hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Það er eitt af því sem tengist þessari tillögu, þ.e. að ríki og sveitarfélög komist að niðurstöðu um það.

Það hafa mjög margir tekið undir þessar ályktanir Sambands ísl. sveitarfélaga og ég held að það sé rétt munað hjá mér að hæstv. núverandi félagsmálaráðherra hafi tekið undir þær í einhverju viðtali um helgina. Ég hygg því að Samband ísl. sveitarfélaga eigi stuðningsmenn um þetta mál, bæði í röðum hv. alþingismanna og ráðherra í ríkisstjórn. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að fá botn í þetta mál.

Nú er það svo að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leikur stórt hlutverk í þessari flóru allri saman. Það var ákveðið fyrir nokkrum árum að setja sérstakt fjármagn inn í jöfnunarsjóðinn til þess að mæta aðstæðum sem upp hafa komið hjá sveitarfélögum sem hafa misst útsvarstekjur eða þar sem fólki hefur fækkað. Það var ákveðið á sl. vetri í samkomulagi milli þáverandi ríkisstjórnar og Sambands ísl. sveitarfélaga að auka við þessa fjármuni, þ.e. þetta voru 700 milljónir áður en á þessu ári og því næsta mun jöfnunarsjóður fá 1.400 milljónir og gerir tillögur um hvernig fénu verði ráðstafað og síðan er það viðkomandi ráðherra að ganga frá því.

Þessir sérstöku fjármunir sem jöfnunarsjóður hefur yfir að ráða eru bráðabirgðaúrræði sem mun renna út í lok næsta árs. Við sem flytjum þessa tillögu teljum að það sé mjög mikilvægt að farið verði í slíkar viðræður milli ríkis og sveitarfélaga til þess að menn sjái lengra fram í tímann í þessum málum. Það er mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi hér og við þekkjum, þeirrar þróunar sem er orðin í sjávarútvegi og mun verða á næstu missirum og árum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég geri ráð fyrir því að allmargir hv. þingmenn vilji taka þátt í umræðu um þetta mál enda er mikill áhugi hjá mörgum hér á Alþingi á sveitarstjórnarmálum og margir sem hafa komið að þeim málaflokki.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari þessi tillaga til félagsmálanefndar. Ég hygg að sú nefnd muni fara með málefni sveitarfélaga a.m.k. fram að áramótum. Annars er ekki gott að átta sig á því hvað menn ætla sér með sveitarstjórnarmálin en það er önnur saga, við fórum yfir það hér um daginn.

Ég vil þó lýsa því að ég er afar ósáttur með hvernig ríkisstjórnin höndlar málefni sveitarfélaganna í Stjórnarráðinu og hefði kosið að menn hefðu gefið sér heldur lengri tíma til að fara yfir þau mál svo ég tali nú ekki um að hafa eitthvert samráð við t.d. Samband ísl. sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn um það með hvaða hætti þeim málum verði komið fyrir í framtíðinni, en það er ekki háttur núverandi ríkisstjórnar að hafa slíkt samráð.