135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:51]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það með að koma á samkeppni, að láta sem það sé svo auðvelt. Það getur verið erfitt. Ég rifja það upp líka að það var áhugi fyrir því í þjóðfélaginu, að minnsta kosti hjá ákveðnum öflum, að sameina Búnaðarbankann og Landsbankann og selja svo. Til allrar guðs lukku var það ekki gert. Það var beðið um forúrskurð hjá Samkeppnisstofnun að mínu frumkvæði sem þá var hægt lögum samkvæmt og niðurstaðan var sú að það samræmdist ekki samkeppnislögum að slík sameining ætti sér stað og því voru bankarnir seldir hvor í sínu lagi. Að því leyti held ég að stjórnvöld hafi beitt sér fyrir samkeppni frekar en hitt, með því að selja þessa banka í tvennu lagi.

En af því að hv. þingmaður sagði líka að bankarnir hefðu ekki keppt um hylli almennings þá kepptu þeir a.m.k. við Íbúðalánasjóð um hylli almennings með því að fara út á þann markað á sínum tíma. Vissulega hafði það mikil áhrif á efnahagskerfi okkar og efnahagslíf sem enn er ekki séð fyrir endann á hvernig skuli á taka.

Varðandi raforkukerfið, svo ég nefni það líka, þá var innleidd tilskipun frá Evrópusambandinu til þess að koma á samkeppni í raforkusölu. En það er ekki hægt að segja að þar sé mikil samkeppni í dag. Við verðum bara að viðurkenna það, þótt umhverfið bjóði upp á samkeppni.