137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held líkt og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að hæstv. ráðherra sé mjög vel meinandi maður en því miður hefur hann ekki enn séð ljósið. En ég vil minna á að ríkisstjórnin er farin að fallast á þann málflutning stjórnarandstöðunnar, sem við höfum viðhaft á undanförnum mánuðum, að ástandið í samfélaginu er mjög slæmt og hæstv. forsætisráðherra samþykkti það.

En þegar hæstv. ráðherra segir að hér sé um fallega hugsun að ræða sem gangi hreinlega ekki upp þá vil ég minna hæstv. ráðherra á stefnu hans eigin flokks en þar stendur, með leyfi forseta:

„Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að leita leiða til að lækka höfuðstól húsnæðislána eða frysta hluta hækkunar höfuðstóls lána vegna verðbólguskotsins.“

Þetta ályktuðu Vinstri grænir í aðdraganda síðustu kosninga. Er hæstv. ráðherra orðinn ósammála stefnu eigin flokks? Var hún óraunhæf? Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að ég held að efni sé til þess að við setjumst niður þverpólitískt, óháð flokkum og förum yfir þessar hugmyndir, stefnu Vinstri grænna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að slíkum samráðsvettvangi verði komið á fót.