137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við tókum um það ákvörðun í vetur, þó að afkoma ríkissjóðs sé erfið, að hækka vaxtabætur um talsvert á þriðja milljarð kr. Það gerðum við m.a. vegna þess að það er skilvirkt tæki til að stýra aðstoð til fólks vegna vaxtakostnaðar af íbúðarhúsnæði (SDG: Það er kostnaður sem lendir á ríkinu.) sem hefur lágar tekjur og á væntanlega að breyttu breytanda í mestu erfiðleikum við (Gripið fram í.) að ráða við afborganirnar. Það er almenn aðgerð. Eru menn ekki að lýsa eftir því? (Gripið fram í.) Við eigum að sjálfsögðu ýmis almenn tæki og eigum að nota þau og að sjálfsögðu verður það gert og það verður skoðað áfram. Gögn Seðlabankans verða áfram notuð til að skoða hversu víðtækur vandinn er, í hverju hann liggur helst. Eru það fasteignaveðlánin, eru það bílalánin, er það gjaldeyrislánahópurinn eða eru það verðtryggðu lánin o.s.frv.?

Ógæfa okkar í þessum efnum er af tvennum toga. Það er alveg ljóst. Verðtryggingin er enn á ný að reynast okkur mjög dýr í skauti, það er rétt. Vegna þess að væri hún ekki til staðar væri skuldabagginn að einhverju leyti að léttast með afskriftum á tímum verðbólgu. (Forseti hringir.) Hinn þáttur ógæfunnar er sá að bankakerfið skyldi ýta gjaldeyrislánum að fólki með tekjur í íslenskum krónum (Forseti hringir.) til að kaupa húsnæði.