137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Af hverju er vandi fólks við að greiða af lánum? Af hverju getur fólk ekki borgað af lánunum? Það er vegna þess að það er atvinnulaust. Vinna hefur minnkað, tekjur fólks hafa skerst verulega og það er ástæðan fyrir því að það getur ekki borgað af lánunum. Ef við mundum borga öllum atvinnuleysingjum, ráða þá alla í vinnu, þá gætu þeir borgað af lánunum og vandinn væri leystur og kröfuhafarnir fengju öll sín lán greidd og það væri ekkert að. En hnífurinn stendur nefnilega einmitt þar í kúnni. Kröfuhafarnir eru ekki tilbúnir til að gefa Íslendingum 200 milljarða og tapa enn meira á Íslandi en þeir eru þegar búnir að tapa. Og halda það að hægt sé að lækka skuldir án þess að neinn greiði. (Gripið fram í: Það hefur enginn gert það.) Einmitt. Það er akkúrat málið. Það er einhver sem verður að greiða og það eru væntanlega kröfuhafarnir en þeir eru ekki tilbúnir til þess. Ef einhver getur fengið þá til að koma hingað með þennan tékka, fínt, en þeir eru ekki tilbúnir til þess. Ef þeir væru með svona stóran tékka til að lækka skuldir gætu þeir alveg eins gert það á miklu virkari hátt, þ.e. að ráða alla þá sem eru atvinnulausir og leyst vandann þannig fyrir alla.

Vandi fólks við að borga af lánunum er fyrst og fremst vegna atvinnuleysis og þar af leiðandi mikillar lækkunar á tekjum. Mér finnst eins og menn séu að leita að einhverri draumsýn. Guð almáttugur á að borga þetta, það er einhver enginn sem á að borga þetta. En þessi enginn er bara ekki tilbúinn til þess. Þessi enginn eru kröfuhafarnir og þeir eru búnir að tapa á Íslandi 6.000 milljörðum. Ef menn vissu hörkuna í slagnum við þá um matið á þessum eignum þá mundu þeir ekki láta sér detta í hug að kröfuhafarnir væru tilbúnir til að borga meira og tapa meiru.