137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:39]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegur forseti. Þetta hefur verið um margt áhugaverð umræða. Ég þakka Framsóknarflokknum fyrir vaska framgöngu í þessu máli. Þetta er mikilvægt mál, sennilega mikilvægasta málið sem þjóðin stendur frammi fyrir, þ.e. að taka á vanda heimilanna.

Ég vil líka þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur vasklega framgöngu. Hún er kjarkkona að tala upp í vindinn í sínum eigin flokki. Það sést ekki mikið til samfylkingarfólks í dag, það er náttúrlega ástæða fyrir því, en það verður að hafa það.

Þetta hefur verið dagur hins mikla misskilnings í þessari umræðu, menn misskilja mjög hverjir aðra og hvert þeir eru að fara. Hvort þeir gera það viljandi eða ekki skal ég ekki segja um en það er talsvert mikill misskilningur að lækkun á höfuðstóli lána lendi endilega á skattgreiðendum, eins og fram hefur komið gæti hugsanlega einhver hluti af því lent á erlendum kröfuhöfum. En það sem okkur í Borgarahreyfingunni er efst í huga er að ef lækkunin á verðbólguskoti íbúðalána Íbúðalánasjóðs verður færð niður mun sú lækkun að sjálfsögðu ganga alla leið, hún mun ganga í gegnum Íbúðalánasjóð og til þeirra eigenda sem eiga útgefin HFF-bréf Íbúðalánasjóðs.

Fyrir okkur í Borgarahreyfingunni er það mjög mikið réttlætismál að heimilin gjaldi ekki fyrir það — og hér er ekki um einhver einföld efnahagsstjórnarmistök að ræða. Hér er um að ræða blekkingaleik sem fyrri ríkisstjórn stóð í. Fyrri ríkisstjórn var vel ljóst í upphafi árs 2008 hvert stefndi í efnahagsmálum, það hefur komið fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Við skulum hafa það í huga að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks — og það er kannski ástæðan fyrir því að Samfylkingin sést hér ekki nema í mýflugumynd — hélt því leyndu fyrir almenningi í landinu að hér stefndi allt á versta veg í efnahagsmálum. Sú ríkisstjórn fór í blekkingaleiðangur um hinn vestræna heim til þess að reyna að sannfæra útlendinga um að hér væri allt í himnalagi. Hún fór í blekkingaleiðangur hvað eftir annað um Ísland til að sannfæra fólk um að hér væri allt í himnalagi. Hún úthúðaði og hæddist að þeim sérfræðingum sem bentu á að hér gæti orðið hugsanlegt hrun og hvatti t.d. til þess að þeir leituðu sér endurmenntunar í sínu fagi. Það er sú ríkisstjórn sem ber ábyrgð á því að vandi heimilanna er eins og hann er í dag.

Þess vegna er það algjört réttlætismál fyrir almenning í landinu að þetta verði lagað. Borgarahreyfingin krefst þess einfaldlega að sá verðbólgukúfur sem myndaðist í upphafi árs 2008 verði lagaður. Vísitala neysluverðs er mannanna verk, hún er ekki eitthvert lögmál sem kemur af himnum ofan og við óskum þess að vísitala neysluverðs verði færð aftur handvirkt til upphafs ársins 2008 þannig að höfuðstóll íbúðalána lækki sem því nemur. Við viljum líka að íbúðalán í erlendum gjaldmiðlum verði færð yfir í íslenskar krónur og fái sömu meðferð. Þetta er að hluta til samhljóma því sem kemur fram í þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins, við róum í sömu átt. Við róum ekki eins hratt og ætlum okkur ekki að róa eins langt en við erum þó að róa í sömu átt.

Sá skilningur hæstv. forsætisráðherra í gær að þetta mundi þýða hundruð milljarða tap ríkissjóðs er rangur og ég hef þegar sagt af hverju það er. Hæstv. forsætisráðherra virðist staðráðin í að halda áfram þeim blekkingaleik sem hún hefur fengið í arf frá forvera sínum. Tapið gengur beint til eigenda lánanna þannig að fjármagnseigendur munu taka á sig hluta af efnahagsáfallinu. Það teljum við vera sanngjarnt því að hér ríkir algjört neyðarástand í efnahagsmálum. Það er neyðarástand á heimilunum og hér hefur orðið efnahagshrun. Þess vegna er dapurlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra vitna í skýrslu Seðlabankans þar sem Seðlabankinn hafnar þessari aðferð.

Ég vek athygli á því að í skýrslu Seðlabankans segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sú hugmynd að hægt sé að færa niður höfuðstól lána er ófær.“

Punktur. Það segir ekkert meir. Það er ekki hægt að afgreiða svona vandamál með þessari aðferð. Það er einfaldlega skammarlegt og segir mér meira en margt annað um að það er enn þá ýmislegt að í Seðlabankanum.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þær efnahagsaðgerðir sem núverandi ríkisstjórn stendur í eru kokkaðar upp af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og því íslenska embættismannakerfi og þeirri íslensku stjórnsýslu sem var hér við völd þegar allt hrundi og byggði undir allt það kerfi sem hrundi líka. Það er því ekki raunhæft að ætlast til þess að það fólk sem stendur á bak við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sé heilt í gerðum sínum. Það reynir einfaldlega að halda áfram á sömu braut.

Hvað varðar gagnrýni hv. þm. Péturs Blöndals áðan á þessa leið langar mig að beina því til hans, þó að hann sé ekki hér í bili, að það er ekki alfarið heimilunum að kenna að þau tóku of há lán. Það fór í gang mikið kapphlaup milli Íbúðalánasjóðs og bankanna vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn krafðist þess að bankar veittu íbúðalán. Það sem gerðist í því kapphlaupi var að bankarnir og Íbúðalánasjóður tóku greiðslumatið sem þeir höfðu notað til þess að meta viðskiptavini sína, og hentu því út um gluggann um langa hríð einfaldlega til þess að geta staðist einhvers konar samkeppni um íbúðalán. Það var því kerfið sem brást að einhverju leyti, að sjálfsögðu einstaklingarnir líka, en það er ekki alfarið hægt að velta því yfir á almenning í landinu.

Ég talaði áðan um að þetta væri dagur hins mikla misskilnings. Það er misskilningur um hver vandi heimilanna er, hann er mikill þó að fólk vilji ekki viðurkenna það. Það virðist líka vera misskilningur í gangi, alla vega hjá Samfylkingunni og stórum hluta Vinstri grænna, um hvað norrænt velferðarkerfi er. Ég er svolítið hissa á því að ekki hefur nema einn þingmaður vakið athygli á því að norræn velferðarkerfi byggja á almennum aðgerðum. Þess vegna búa íbúar norræna velferðarkerfa sennilega við bestu lífsskilyrðin í öllum heiminum.

Hér eru í gangi sértækar aðferðir, einstaklingsmiðaðar aðgerðir í anda engilsaxneskra hagfræðinga og efnahagsstefnu þar sem Samfylkingin sækir að sjálfsögðu sína stefnu til breska Verkamannaflokksins og Tonys Blairs. Slíkt er einfaldlega ekki velferðarkerfi, það er ekki hægt að kalla það því nafni, þannig að sú ríkisstjórn sem nú er við völd er einfaldlega ekki velferðarstjórn, hún er ekki norræn velferðarstjórn. Hún er hagstjórn í anda engilsaxneskra markaðslögmála sem gefur lítið fyrir að almenningur og heimilin séu í vandræðum. Ég vil aftur hrósa hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir að benda á það. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í gær að sú væri raunin, að ríkisstjórnin sem kallar sig norræna velferðarstjórn veit ekki hvað norrænt velferðarkerfi er. Þetta eru því svo sannarlega dagar hins mikla misskilnings.

Niðurfelling á höfuðstóli mundi gefa fólki andrými og von um framtíð. Sú tilfinning að verið sé að gera eitthvað af alvöru til þess að aðstoða fólk breytir mjög miklu. Ég fæ símtöl á hverjum einasta degi og ótrúlegan fjölda tölvupósta sem ég reyni eftir fremsta megni að svara, en depurðin og svartsýnin í þessum símtölum og tölvupóstum sem ég fæ er yfirgengileg. Það er fólk á öllum aldri sem býr við alls konar fjölskylduaðstæður og sér einfaldlega svartnætti fram undan. Það sér enga ljósglætu vegna þess að hér er við völd ríkisstjórn sem hótar oft á dag niðurskurði í velferðarþjónustu, skattahækkunum á fólk sem á ekki meiri pening og hótar því að ekki muni neitt verða gert til þess að aðstoða það við að halda húsnæði sínu.

Vonandi gengur það eftir sem menn hafa verið að tæpa á nú í lok umræðunnar, að stofnuð verði nefnd eða hópur sem vinna muni að þverpólitískum leiðum til þess að leysa þennan vanda. Ef það verður ekki gert horfum við fram á mjög svarta daga.