139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auknir skattar á ferðaþjónustu.

[15:23]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki hægt að vænta þess af hv. þingmanni að hann hlusti þar sem hann hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann hlustar ekki á neitt af því sem hér er sagt. Ég veit ekki betur en að ég hafi sagt það í ræðustóli Alþingis, og hv. þingmaður skal þá lesa ræðuna sem ég flutti áðan, að útfærslan á þessu efni væri svo sannarlega á borði samgönguráðherra en ég hefði hugsað mér að kalla til forustumenn þessa fyrirtækis og flugrekstraraðila hér á landi til að fara yfir stöðuna. (Gripið fram í.) Sagði ég það ekki áðan? Sem ferðamálaráðherra ætlaði ég að gera það.

Hv. þingmaður kýs bara að fara með sömu möntruna aftur og aftur um að ekkert sé verið að gera og að menn hlusti ekki eða hendi verkefnunum frá sér.

Virðulegi forseti. Slíkur málflutningur er að verða hluti af stóra meininu í þinginu, hann er að verða hluti þess að erfitt er að koma málum áfram vegna þess að menn eru ekki tilbúnir að vinna að þeim í sameiningu, þeir eru ekki einu sinni til í að hlusta hver á annan í þingsal. Ég ætla að kalla menn til fundar vegna þessa máls. (Forseti hringir.) Samvinna er lykilatriði í stóra samhenginu við nýja ferðamálaáætlun og auðvitað mun ég skoða málið sem ferðamálaráðherra. (Gripið fram í.)