139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

efnahagur Byggðastofnunar.

14. mál
[16:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur beint til mín þremur fyrirspurnum og mun ég svara hverri fyrir sig.

Í fyrsta lagi spyr hann: „Hver verða áhrif á efnahagsreikning Byggðastofnunar, að mati stofnunarinnar, af þeirri ákvörðun að fella niður aflamark í rækju?”

Mat á áhættu vegna einstakra lána fjármálastofnana er háð ströngum reglum. Lánastarfsemi Byggðastofnunar lýtur reglum og eftirliti Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits. Í samræmi við þær ber Byggðastofnun að halda afskriftareikning útlána sem sýnir á hverjum tíma þá áhættu sem tekin hefur verið og fólgin er í útlánum stofnunarinnar. Um leið og ákvarðanir eru teknar um lánveitingar skal taka tillit til þeirrar hættu og áhættu sem af þeim leiðir með framlagi afskriftareiknings sem er endurmetinn reglulega til hækkunar eða lækkunar.

Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun hefur stofnunin verið í viðskiptum við flest þau átta fyrirtæki sem nú starfa á sviði rækjuveiða og -vinnslu. Almennt eru þessi fyrirtæki í skilum og greiða reglulega afborganir af lánum og eru stofnuninni ekki sérstakt áhyggjuefni. Á því eru þó undantekningar og er það mat Byggðastofnunar að vegna afnáms rækjukvótans sé óhjákvæmilegt að gjaldfæra 700 millj. kr. í afskriftareikning vegna þriggja skuldara af átta í greininni. Árshlutareikningur fyrir fyrri hluta ársins 2010 liggur nú fyrir og er ljóst að staða Byggðastofnunar er mjög erfið þar sem eiginfjárhlutfall stofnunarinnar 30. júní sl. var komið niður í 5,18%. Meginástæða þessarar stöðu eru ófyrirséð framlög í afskriftareikning útlána sem námu þá samtals 1,1 milljarði kr., þar af þessar áðurnefndu 700 milljónir.

Ég var líka spurð hvort kannað hafi verið fyrir fram hjá Byggðastofnun eða í ráðuneytinu hvaða áhrif þessi ákvörðun hefði á efnahagslega stöðu Byggðastofnunar. Því er til að svara í stuttu máli: Iðnaðarráðuneytinu var ekki kunnugt um þessar ráðagerðir fyrir fram og samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun gilti það sama um þá stofnun.

Í þriðja lagi er spurt hvernig brugðist verði við af hálfu ríkisvaldsins til þess að styrkja efnahag Byggðastofnunar í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda um rækjuveiðar. Ég heyrði að hv. þingmaður velti því upp hvort stofnunin væri lömuð eftir þessa ákvörðun og verð ég að svara því til að svo er auðvitað ekki. En fulltrúar iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hafa rætt fjárhagsstöðu Byggðastofnunar við forstjóra, forstöðumann rekstrarsviðs og endurskoðanda stofnunarinnar og þrátt fyrir að sá vandi sem stofnunin stendur nú frammi fyrir stafi fyrst og fremst af afnámi rækjukvótans er ljóst að langvarandi rekstrarhalli hefur um árabil gert stofnuninni erfitt fyrir.

Í fjáraukalögum 2007 var tekið á þessum uppsafnaða vanda þegar eigið fé stofnunarinnar var aukið um 1,2 milljarða kr. Sú aðgerð hafði ekki varanleg áhrif. Vegna þess var nauðsynlegt aftur að auka eigið fé Byggðastofnunar um 3,6 milljarða kr. á grundvelli heimilda í fjáraukalögum 2009 og fjárlögum 2010. Miðað var við að sú aðgerð mundi skila eiginfjárhlutfalli á bilinu 9–10% í lok þessa árs. Það markmið næst ekki eins og fram hefur komið en það var núna í lok júní 5,18%, og í vor, eftir að þessir 3,6 milljarðar voru settir inn í stofnunina, var eiginfjárhlutfallið 8,7% þannig að markmiðið hefði heldur ekki náðst þrátt fyrir það sem hér er til umræðu.

Samkvæmt lögum um Byggðastofnun er fjárhagslegt markmið lánastarfseminnar að varðveita eigið fé að raungildi. Það hefur ekki reynst raunhæft markmið. Vandi Byggðastofnunar er talinn stafa af því að hið almenna bankakerfi gat ekki uppfyllt lánsþörf margra fyrirtækja á landsbyggðinni og því þurfti ríkið að koma til móts við þann markaðsbrest með sveigjanlegri kjörum en bankarnir bjóða almennt upp á, að öðrum kosti væri mörgum fyrirtækjum þar stefnt í voða. Þess vegna eru lánveitingar Byggðastofnunar áhættusamari en annarra lánastofnana.

Þess vegna er ljóst að það þarf að skoða lánastarfsemi Byggðastofnunar frá grunni, meta þörfina fyrir hana og hvernig henni verði best fyrir komið. Endurteknar fjárveitingar til stofnunarinnar vegna ófyrirséðra aðstæðna eru óviðunandi, bæði fyrir stofnunina og fyrir ríkið. Það þarf að finna farveg fyrir lánastarfsemina sem tryggir varanlegan stöðugleika. Meðal annars þarf að meta og taka afstöðu til þess hvort hinar samfélagslegu skyldur Byggðastofnunar um að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni samræmist kröfu um varðveislu eigin fjár og hvort viðurkenna þurfi að lánastarfsemin muni ekki standa undir sér að óbreyttu og að stofnunin þurfi hreinlega árlegar fjárveitingar í fjárlögum til að geta sinnt samfélagslegum skyldum sínum. Það þurfum við allt að fara vandlega yfir núna. Til að svara þessum og öðrum álíka spurningum er lúta að lánastarfsemi Byggðastofnunar hef ég sett á laggirnar (Forseti hringir.) starfshóp í samráði við fjármálaráðherra sem mun vinna að því (Forseti hringir.) að koma þessum málum í eitthvert varanlegt og gott horf.