140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Álbræðslur eru gríðarlega stór og orkufrekur iðnaður, þ.e. stórkaupandi að orku. Ég get alveg fallist á að það gat verið og var skynsamlegt að reyna að finna slíka stórkaupendur að orku þegar við vorum að byggja upp innviði í raforkuflutningum og öðru hér á landi. Þetta gerðum við. Það voru settar hér upp nokkrar álbræðslur sem hjálpuðu okkur við að byggja virkjanir sem vissulega hafa sumar verið umdeildar. Gott og vel, við stöndum uppi með innviði til raforkuflutninga og aðra slíka kosti. Núna hefur Landsvirkjun farið yfir stöðuna. Það er verið að gera rammaáætlun. Vonandi komumst við að sátt um að það sé tiltekin orka eftir í landinu sem við þurfum að selja. Landsvirkjun hefur tekið þá skynsamlegu ákvörðun að best sé að búa til samkeppni um þessa orku. Mér finnst einhvern veginn blasa við að það sé það skynsamlegasta sem þurfi að gera. Heimurinn hefur þróast þannig að það er mun meiri eftirspurn eftir hreinni orku og það vill svo til að þetta er hrein orka þannig að Landsvirkjun ætlar að fá sem hæst verð fyrir þá orku sem eftir er í landinu. Hún er takmörkuð, sú orka sem við getum virkjað í sátt, og þá blasir líka við mér að Þingeyingar standa einstaklega vel að vígi gagnvart þessari breyttu stefnu. Ég sé ekki annað en að það sé bara mjög bjart fram undan. Þar er hafin samkeppni um þessa orku. Það er verið að undirbúa þarna virkjunarframkvæmdir. Fyrirtæki eru byrjuð að sækja um lóðir þannig að það er einhvern veginn allt að gerast. Stóri plúsinn er sá umfram það að fara hefðbundnu leiðina og selja orkuna á kostnaðarverði til álbræðslna að þarna fáum við hærra verð (Forseti hringir.) fyrir orkuna sem skilar sér síðan líka til þjóðarbúsins.

Eru ekki bara allir ánægðir?