143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:17]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Þetta er í fimmta sinn sem ég er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um þetta efni og nú ásamt níu öðrum þingmönnum. Ég fékk þó ekki tækifæri til að mæla fyrir því á síðustu tveimur þingum en fagna því sannarlega að nú gefst tóm til að tala fyrir málinu svo snemma á þinginu og vona að það fái þá afgreiðslu í nefnd og að við getum tekið lokaafstöðu til þess síðar á þessu þingi.

Efni frumvarpsins er að þingmaður sem skipaður er ráðherra geti látið af þingmennsku og varamaður tekið sæti hans á þingi meðan hann gegnir ráðherraembætti.

Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Skilin á milli valdþáttanna eru þó allóskýr þar sem kjörnir alþingismenn skipa einnig ríkisstjórnina sem er æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins. Það hallar því mjög á völd löggjafans í því kerfi sem við búum við.

Hv. þáverandi þingmaður Siv Friðleifsdóttir lýsti þessu ágætlega þegar hún mælti fyrir breytingu á stjórnarskipunarlögum á 139. löggjafarþingi. Tillagan sem hún mælti fyrir orðaðist þannig, með leyfi forseta:

„Sé þingmaður skipaður ráðherra skal hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherradómi og tekur varamaður hans sætið á meðan.“

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði í ræðu sinni þegar hún flutti þetta mál að þegar ráðherrar hefðu fengið kynningu á frumvörpum annarra ráðherra í ríkisstjórn og ekki gert athugasemd væri mikil tilhneiging hjá þeim til að koma þeim einnig í gegnum þingflokkana sína sem gerði öðrum þingmönnum erfitt að stöðva mál eða koma fram verulegum breytingum. Þarna talaði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir af eigin reynslu vegna þess að hún hafði þá vissulega setið í ríkisstjórn.

Ég tel að það eigi ekki eingöngu við um frumvörp sem ráðherrar úr samstarfsflokki í ríkisstjórnum leggja fram. Ég tel líka að fjarlægðin, ef svo má kalla það, á milli ráðherra og þingmanna úr sama flokki sé ekki næg. Þá bið ég fólk að snúa ekki út úr því. Auðvitað á ekki að vera fjarlægð á milli flokksmanna en þetta eru tveir valdþættir og við verðum að líta til þess að ráðherrar koma fram fyrir framkvæmdarvaldið og þingmenn fyrir löggjafarvaldið og þeir eiga að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þess vegna má þetta samband þarna á milli ekki vera of náið.

Ráðherrann lætur semja frumvarpið. Hann rekur málið í gegnum þingflokk, hann flytur málið í þingsal og greiðir loks atkvæði. Það er óhætt að segja að ráðherraræði ríki og það er reyndar það sem verið hefur mjög ríkjandi hér og ég held að enginn efist um að mjög mikið foringjaræði og ráðherraræði hefur einkennt íslensk stjórnmál. Það er meðal annars tekið á því í rannsóknarskýrslunni um fall bankanna og efnahagshrunið á Íslandi.

Í niðurstöðum þingmannanefndarinnar sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis má meðal annars finna eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki [að] vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.“

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er lagt til að ráðherrar láti af þingmennsku. Um það segir í skýringum stjórnlagaráðsins, með leyfi forseta:

„Með þessu er löggjafar- og framkvæmdarvaldið aðskilið frekar enda eru ráðherrar þá ekki lengur í þingflokkum og taka að jafnaði aðeins þátt í umræðu í þinginu ef þeir eru til þess kallaðir. Þinginu er þannig gert auðveldara að fylgjast með og gagnrýna frammistöðu ríkisstjórnar með sjálfstæðum hætti.“

Virðulegi forseti. Auðvitað er það bara lítið skref í áttina að meira sjálfstæði þingsins að ráðherra láti af þingmennsku, en það er þó skref. Mér hefur því miður virst nokkuð bera á því undanfarið að kannski sé það ekki mikið sem við þurfum að laga og læra af þeim óförum og ósköpum sem gengu yfir þjóðfélagið hér fyrir fimm árum. Ég er algjörlega á öndverðri skoðun. Okkur hefur vissulega ekki auðnast að taka stór skref til breytinga en því fremur eigum við að taka þau litlu skref og ekki gera lítið úr þeim.

Auðvitað er ekki hægt að gera ráðherrum skylt að láta af þingmennsku nema stjórnarskránni verði breytt. Eins og við vitum er ekki einfalt að breyta henni, virðulegi forseti. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram til að gera þeim sem það kjósa mögulegt að segja af sér þingmennsku ef þeir eða þær eru skipuð ráðherrar. Vilji einhver sem skipaður eða skipuð er ráðherra í dag láta af þingmennsku verður sá hinn sami eða sú hin sama að segja af sér þingmennsku og getur þá ekki snúið aftur til þings á sama kjörtímabili ef aðstæður eða hagir breytast á kjörtímabilinu, hvort sem þeir eru persónulegir eða pólitískir.

Það er ekki hægt að ætlast til þess af nokkurri manneskju að gera það, a.m.k. ekki að mínu viti.

Verði frumvarp þetta samþykkt er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hvað hún eða hann gerir í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Það er bjargföst skoðun mín að það muni leiða til betri stjórnarhátta að aðskilnaður valdþáttanna væri skýrari en hann er. Ég mæli því fyrir þessu frumvarpi og æski þess að það verði sent til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.