144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ævinlega er hæstv. fjármálaráðherra langbestur þegar hann talar beint frá hjartanu. Mér fannst fyrri partur ræðu hans vera prýðilegur og felldi mig við mjög margt þar. Mér fannst aftur á móti ræðan versna allmjög þegar hann fór að lesa upp þann þurra texta sem kontóristar í kansellíinu höfðu greinilega skrifað fyrir hann. En það er ýmislegt sem við gætum orðið sammála um.

Ég er í fyrsta lagi sammála því að skoða á virðisaukaskattinn, breikka stofninn og fækka undanþágum. Við höfum eitt stórt ágreiningsmál þar. En um þetta sagði hæstv. ráðherra að rétt væri við endurskoðun kerfisins að koma svona hlutum fyrir. Ég skil viðkvæmt sálarlíf fjármálaráðherra sem þarf að láta bækurnar og sjóðina stemma. Auðvitað hugsar hæstv. fjármálaráðherra kannski til framtíðarinnar, þegar bílum af þessu tagi fjölgar þá falla tekjur ríkisins. Ég tel að farsælt væri fyrir hæstv. ráðherra að koma upp kerfi sem væri þannig að undanþágna mundu njóta bílar upp í tiltekinn fjölda, t.d. fjögur eða fimm þúsund bílar, og þá gilti einu hvort um væri að ræða eignarleigu eða hefðbundin kaup. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að skoða þetta þegar hann kemur með sitt endurskoðaða kerfi. Þá gæti vel verið að það mundi falla í betri jarðveg en sumt af því sem hann hefur verið að boða varðandi það hingað til.

Í þessu tilviki er það þannig að flokkur hæstv. ráðherra, ríkisstjórnin öll, og ég held allir þingflokkar vilja mjög sterklega reyna að ná fram aðgerðum sem draga úr losun. Orkuskipti í samgöngum skipta mestu máli. Markaðurinn er í reynd búinn að velja rafbílana. Við sjáum það til dæmis í Noregi að þar hafa menn náð góðum árangri. Þeir hafa farið leiðir sem við höfum tekið upp eins og til dæmis með það að fella niður virðisaukaskatt á ýmis gjöld við kaup bíla. Og ýmislegt annað líka. Gjaldfrjálst í bílferjur og menn þurfi ekki að greiða vegtolla. Það eru því ýmsar leiðir sem hægt er að fara.

Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að vera trúr eðli sínu og ekki vera með neina fordóma gagnvart hinum fyrir fram ákveðnu leiðum.