144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

180. mál
[17:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Því er til að svara að það virðist vera sem einhvers misskilnings gæti í fyrirspurninni. Því ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 51/2014 sem hv. þingmaður vísar til og fjallar um forgang lögreglustjóra í hinu nýja embætti lögreglustjóra, sem urðu til samkvæmt þeim lögum, var ekki beitt þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir var flutt frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu enda var það ekki mögulegt. Sigríður Björk Guðjónsdóttir var flutt á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, getur flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Enn fremur getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi, enda óski það stjórnvald eftir því.“

Þessi heimild í lögum er mjög skýr. Hún hefur ítrekað verið nýtt og er vel þekkt, bæði þegar um er að ræða lögreglustjóra og aðra embættismenn. Til að mynda skipaði hv. þm. Árni Páll Árnason á grundvelli sömu greinar, 36. gr. starfsmannalaga, Bolla Þór Bollason ráðuneytisstjóra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu árið 2009. Hið sama gerði þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þegar hún flutti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytið.

Meginreglan er auðvitað sú, eins og hv. þingmaður bendir á, að embætti eru auglýst laus til umsóknar, hvort sem þau eru ný eða gömul. Hins vegar hefur ráðherra, líkt og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki, skýra heimild sem hefur ítrekað verið nýtt samkvæmt umræddri 36. gr. starfsmannalaga er varðar lögreglustjóra sem eru ekki ráðnir með fasta setu heldur þannig að hægt sé að færa þá á milli svæða.

Virðulegur forseti. Það er svo við þetta að bæta að ég mat það mikils, þar sem spurt er um ástæðurnar, að fá Sigríði Björk Guðjónsdóttur til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Ég vil sérstaklega nefna þrjár:

Í fyrsta lagi má nefna að Sigríður Björk Guðjónsdóttir sýndi mikla ráðdeild í rekstri embættisins á Suðurnesjum. Hún tók þar við afar erfiðu búi en náði að snúa rekstrinum til betri vegar innan þess tíma sem ætlast var til.

Í öðru lagi taldi ég afar mikilvægt og tel það mjög mikilvægt að áherslur hennar í baráttunni gegn heimilisofbeldi ásamt eflingu rannsókna í kynferðisbrotamálum fengju sérstaka athygli á höfuðborgarsvæðinu. Sem lögreglustjóri á Suðurnesjum hafði hún hafið mikið átak til að sporna við endurteknu heimilisofbeldi, en ég veit að það er bæði viðkvæmt og flókið mál að veita bæði þolendum og gerendum heimilisofbeldis viðeigandi aðstoð. Þessi vinna, sem hefur einnig gagnast öðrum lögregluembættum á landinu og í raun og veru samfélaginu í heild sinni, er dæmi um nýja hugsun á þessum vettvangi, ný vinnubrögð og stöðuga endurskoðun á hlutverki lögreglunnar.

Í þriðja lagi taldi ég mikilvægt að kona yrði skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei áður hefur kona gegnt því mikilvæga embætti og þetta er því í fyrsta sinn sem það gerist. Ég hef áður sagt það hér á þingi og tel mig að hluta til bundna af sendingum og skýrum skilaboðum löggjafans í því efni að mikilvægt sé að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum, ekki síst innan lögreglunnar.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að unnið var með þessum hætti á þessum tíma. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ítrekað hefur verið flutt á milli slíkra embætta og innan embættismannakerfisins, enda er heimild þess efnis í 36. gr. starfsmannalaga skýr og hefur margoft verið notuð eins og ég efast ekki um að hv. þingmaður viti. Það var gert í þessu tilviki og hafði ekkert að gera með stofnun nýrra embætta.