148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru margar spurningar en ég skal reyna að fara hratt yfir sögu. Ég gleðst þó mjög yfir því að hæstv. ráðherra telji tilefni til að bera saman aðgerðir núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem ég fór fyrir. Ég held að það muni gefa okkur mörg tækifæri til skemmtilegs samanburðar. Ég hafði vissulega á sínum tíma áhuga á Alþingi og störfum þess þó að ég hafi ekki haft sérstakan áhuga á að hlýða á endalausar ræður hæstv. ráðherra um fundarstjórn forseta á sínum tíma. Þegar hæstv. núverandi ráðherra var í stjórnarandstöðu var varla vinnufriður á þinginu fyrir endalausum uppákomum sem lýstu sér m.a. í margra klukkustunda ræðum um fundarstjórn forseta nánast daglega.

Hvað varðar Landspítalann er rétt að hópur lét gera mjög afmarkaða úttekt byggða á mjög afmörkuðum forsendum á sínum tíma. Þetta var ekki á mínum vegum. Það var enginn sem spurði mig hvort ætti að ráðast í þessa úttekt eða spurði mig álits á því hvernig það yrði best gert. Enda var úttektin gerð til þess að skila ákveðinni niðurstöðu. Forsendurnar voru til þess gerðar. Eins og hæstv. ráðherra veit er það þannig með excel-forritið að það sem kemur út úr því byggir algjörlega á því sem sett er inn í það. Það var fullkomlega fyrirsjáanlegt hvað kæmi út úr þeirri úttekt og til hvers hún var ætluð — að ná þessari niðurstöðu.

Eins og ég rakti í ræðu áðan er það einfaldlega alrangt og það er mótsögn að Alþingi hafi á árinu 2014, held ég að það hafi verið, samþykkt tillögu um að byggja ætti nýjan Landspítala við Hringbraut. Þvert á móti. Ég og fleiri þingmenn sem töldum þetta óráð vorum ekki tilbúnir að samþykkja þá tillögu. Og til þess að hægt væri að ljúka þingstörfum var þá fallist á að afgreiða tillögu sem var hvorki fugl né fiskur miðað við það sem lagt var upp með, þar sem allir sammæltust um og allir voru sammála um að það þyrfti að ráðast í nauðsynlegt (Forseti hringir.) viðhald og framkvæmdir við Hringbraut en ekki byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.