148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er kannski knappur tími til að fara í efnismiklar umræður en mig langar samt að gera tilraun. Ég tek undir orð hv. þingmanns Samfylkingarinnar, um þá falleinkunn sem fjármálastefna ríkisstjórnarinnar fær í umsögn fjármálaráðs, en ég held að við fáum betra tóm til að ræða hana. Ég hef meiri áhyggjur af efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar og það eru kannski þá fyrst og fremst áhyggjur af því að það er engin efnahagsstefna hjá þessari ríkisstjórn, hana er hvergi að finna. Hér er talað um mikilvægi þess að auka viðgang tækni- og þekkingarfyrirtækja og leggja aukna áherslu á menntun en það er enga sýn að finna á það hvernig á að skapa þessum fyrirtækjum rekstrargrundvöll. Það er engin sýn á það hvernig á að skapa þeim stöðugt gengisumhverfi, hvernig á að skapa þeim lágt vaxtaumhverfi. Það er meira að segja svo að ríkisvaldið leggst í sérstaka niðurgreiðslu á þá atvinnugrein sem býr kannski við hvað (Forseti hringir.) lægst þekkingarstig og minnsta menntunarþörf sem er ferðaþjónustan. Og nú vil ég ekki vera að hallmæla gildi ferðaþjónustunnar fyrir vöxt og viðgang hagkerfisins hjá okkur en það er einfaldlega svo að við verðum að horfa til annarra þátta þegar við ætlum að vaxa til framtíðar.