149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[14:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka Alþingi góð viðbrögð við þessari málaleitan, að fá að afgreiða afbrigði með þeim hætti sem raun ber vitni, og ég þakka þá samstöðu um þá afgreiðslu sem náðist hér áðan.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fiskeldi. Þau eru nr. 71/2008. Með frumvarpinu er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði heimilað að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða þegar ríkar ástæður mæla með því. Með því verði lagfærður með almennum hætti annmarki á lögum um fiskeldi til lengri tíma. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar, í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi, að stöðva starfsemi hennar þegar í stað. Þannig hafa stjórnvöld engin úrræði til að koma í veg fyrir mögulega óafturkræfa og óþarfa sóun verðmæta né heldur gæta meðalhófs. Með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 3/2018 (Arctic Sea Farm) og nr. 5/2018 (Fjarðalax) sem kveðnir voru upp 27. september 2018 var varpað ljósi á fyrrgreinda annmarka á lögum um fiskeldi. Með þessum úrskurðum voru felldar úr gildi þær ákvarðanir Matvælastofnunar að veita Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðalaxi hf. rekstrarleyfi fyrir 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Niðurstaða nefndarinnar byggir á því að skýrsla fyrirtækjanna um umhverfismat framkvæmdanna og álit Skipulagsstofnunar á skýrslunni geti ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfanna. Nefndin taldi að svo hafi ekki verið þar sem tefla hefði þurft fram fleiri en einum valkosti við mat á umhverfisáhrifum enda nauðsynlegt að fá fram samanburð umhverfisáhrifa fleiri kosta en lögbundin krafa er gerð um. Framangreind fyrirtæki lögðu fram beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en nefndin taldi sig ekki hafa heimild til að gera slíkt og var beiðni fyrirtækjanna því hafnað.

Réttaráhrif framangreindra úrskurða eru þau að Matvælastofnun ber, samkvæmt ákvæði í 21. gr. c í lögum um fiskeldi, að stöðva þá starfsemi sem byggist á leyfum sem úrskurðirnir lutu að. Tilgangur þessa ákvæðis fiskeldislaganna virðist, með hliðsjón af orðalagi þess, fyrst og fremst sá að tryggja Matvælastofnun örugg stjórntæki til viðbragða ef fiskeldisstöð yrði sett á fót án þess að leyfa fyrir starfsemi hennar hefði verið aflað.

Hin fortakslausa regla í 21. gr. c á hins vegar ekki vel við ef rekstrarleyfi fellur úr gildi meðal annars vegna annmarka sem orðið hefur við stjórnsýslu leyfisútgáfunnar. Í slíkum tilvikum standa þvert á móti sterk rök til þess, með hliðsjón af sjónarmiðum um meðalhóf og um að komist sé hjá óafturkræfri og hugsanlega óþarfri sóun verðmæta, að stjórnvöldum sé með lögum veitt svigrúm til að leggja þá hagsmuni sem um ræðir á vogarskálarnar og leggja í því ljósi mat á hvaða úrræði eru best til þess fallin að ná fram réttri niðurstöðu að lögum. Sú mynd sem upp kemur þegar framangreindir úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggja fyrir er skýr um það að slíkt svigrúm til mats skortir. Það að lög um fiskeldi geri ekki ráð fyrir neinu slíku svigrúmi felur í sér annmarka á núverandi lagaumhverfi og þá ekki síst í ljósi eðlis þess reksturs sem um ræðir. Tilgangur þessa lagafrumvarps er að bæta úr þessum ágalla á lögunum.

Samkvæmt framangreindu er nauðsynlegt að bregðast við í frumvarpi þessu með öflun heimildar fyrir ráðherra til útgáfu rekstrarleyfis til bráðabirgða. Með því er sett almenn heimild til að bregðast við aðstæðum sem þessum. Lagasetningin lýtur því ekki með beinum hætti að þeim tilvikum sem nú eru uppi vegna niðurstaðna í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála heldur er með henni stefnt að því að lagfæra ágalla á lögum um fiskeldi til framtíðar. Tilgangur rekstrarleyfis til bráðabirgða getur verið mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni, m.a. að veita fyrirtæki kost á því að draga úr starfsemi sem þegar er fyrir hendi þegar rekstrarleyfi fellur úr gildi, og þá með það markmið í huga að rekstrinum verði alveg hætt. Einnig gæti tilgangur slíks leyfis verið að gefa fyrirtæki kost á að bæta úr annmörkum á rekstrarleyfi áður en sótt er um leyfi að nýju eða láta reyna á niðurfellingu rekstrarleyfis fyrir dómstólum.

Hæstv. forseti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra geti, í þeim tilvikum þegar rekstrarleyfi er fellt úr gildi og ríkar ástæður mæla með, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða. Umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða þarf að berast frá handhafa hins niðurfellda leyfis innan þriggja vikna frá því að úrskurður féll. Ráðherra skal síðan afgreiða umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að umsókn berst.

Það er skilyrði útgáfu ráðherra á rekstrarleyfi til bráðabirgða að fyrir liggi umsögn Matvælastofnunar. Í slíkri umsögn geta m.a. komið fram upplýsingar um þau gögn sem aflað var við undirbúning þess leyfis sem fellt var úr gildi. Þá getur Matvælastofnun sett fram leiðbeiningar varðandi möguleg viðbótarskilyrði ef þörf er talin á slíku. Það er jafnframt skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis til bráðabirgða að ríkar ástæður mæli með útgáfu slíks leyfis. Við mat ráðherra á þessu skilyrði þarf m.a. að taka til skoðunar þá hagsmuni sem í húfi eru hverju sinni, bæði fjárhagslega en ekki síður umhverfislega og samfélagslega. Þá geta málefnaleg sjónarmið um að koma í veg fyrir óafturkræfa sóun verðmæta einnig haft þýðingu í þessu samhengi. Enn fremur verður að hafa í huga að hagsmunir aðila máls kunna að vera andstæðir og að þá verður að vega og meta með réttum hætti í þessu sambandi.

Í frumvarpinu er gert að skilyrði að rekstrarleyfi til bráðabirgða skuli vera efnislega innan gildissviðs þess rekstrarleyfis sem var afturkallað. Með þessu er átt við að umfang leyfisins má ekki verða meira en þess leyfis sem fellt var úr gildi. Ráðherra er heimilt að hafa leyfið efnislega þrengra en fyrra leyfi var og honum verður heimilt að setja því nauðsynleg viðbótarskilyrði ef hann telur svo nauðsynlegt. Þannig má ráðherra setja skilyrði sem þörf er á svo að tilgangi rekstrarleyfis til bráðabirgða sé náð, svo sem um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða um meðferð máls fyrir dómstólum. Telja verður mikilvægt að ráðherra hafi heimild sem þessa en það fer eftir atvikum hverju sinni með hvaða hætti henni er beitt.

Fyrir kemur í ákvæðinu að ákvörðun um rekstrarleyfi til bráðabirgða megi byggja á gögnum sem aflað hefur verið við undirbúning þess leyfis sem fellt var úr gildi. Þannig getur ráðherra, við ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis til bráðabirgða, m.a. byggt á gögnum sem tiltekin eru í 8. gr. laga um fiskeldi. Hér má m.a. nefna upplýsingar um að eldisbúnaður umsækjanda standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó og afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Loks ber að geta þess að ráðherra ber í hverju tilviki að meta þessi gögn í ljósi mögulegra annmarka sem voru á því rekstrarleyfi sem fellt var úr gildi við ákvörðun hans um útgáfu rekstrarleyfis til bráðabirgða. Það leyfi er gefið út til allt að tíu mánaða en slík leyfi má gefa út til skemmri tíma.

Rétt þykir að marka gildistíma leyfa sem þessara tiltekinn hámarkstíma enda er um undantekningu að ræða frá hefðbundnu leyfisveitingarferli. Telja verður að á tíu mánuðum ætti rekstrarleyfishafa að vera fært að ná fram tilgangi og markmiðum rekstrarleyfis til bráðabirgða í hverju og einu tilviki, hvort sem það er að lagfæra annmarka á rekstrarleyfi eða af öðrum ástæðum.

Ráðherra er heimilt að endurútgefa slíkt leyfi einu sinni þannig að leyfi getur að hámarki gilt í 20 mánuði.

Loks ber að taka fram að útgáfa ráðherra á rekstrarleyfi til bráðabirgða er eðli máls samkvæmt ekki kæranleg til annarra stjórnvalda. Hins vegar er að sjálfsögðu hægt að bera slíka ákvörðun undir dómstóla samkvæmt almennum reglum.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum árétta að frumvarpi þessu er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist sem fyrr segir í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar. Þannig hafa stjórnvöld engin úrræði til að koma í veg fyrir mögulega óafturkræfa og óþarfa sóun verðmæta né heldur að gæta meðalhófs.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.