149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[14:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Mér sýnist samt á því að aðrar leiðir hafi verið færar og mér finnst óþægilegt að verið sé að setja okkur í þá stöðu að grípa inn í á þennan hátt ef úrræðin eru til staðar.

Hæstv. ráðherra segir að úrskurðarnefndin hafi einhvern veginn verið látin meta sjálf hvort hún hafi í rauninni þann lagalega rétt eða ekki. Mér finnst sérkennilegt ef fyrir liggja klár lögfræðiálit að aðilar, hvort sem það eru stofnanir eða stjórnvöld, geta ákveðið að segja: Nei, ég held að ég megi ekki gera þetta.

Ég held að við ættum að vinna aðeins meira með þetta. Ég er viss um að flestir hér inni eru sammála því að bregðast þurfi við á einhvern hátt og valda ekki óafturkræfu tjóni, en ég held að við ættum aðeins að hugsa okkar gang miðað við svör ráðherra.

Fyrst ég er kominn hingað upp langar mig að spyrja: Hver er staðan ef dómur fellur eftir níu mánuði og staðfestir úrskurð nefndarinnar?