149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta var fróðleg ræða. Það eru engin misvísandi skilaboð frá ríkisstjórninni í þessu máli, langur vegur frá því. Ég nefndi það í minni framsögu að samkvæmt 21. gr. c í fiskeldislögum ber Matvælastofnun að stöðva starfsemina.

Hvað eigum við að bíða lengi eftir því að stofnunin gangi til verka að þeim lögum sem þingið hefur sett? Er hv. þingmaður með einhverjar hugmyndir um það? Hvað á að gefa henni langan tíma? Munurinn á annars vegar starfsleyfum sem umhverfisráðherra hefur heimild til að fella úr gildi — það er innbyggt í lögin, virðulegi þingmaður, hv. þingmaður, bið þig að taka eftir þessu. Það er innbyggt í lögin um starfsleyfin að umhverfisráðherra hefur þá heimild sem hér er verið að óska eftir. Hann getur þar af leiðandi þegar í dag, ef hann er ekki þegar byrjaður á því, undirbúið það skilmerkilega með hvaða hætti hann ætlar að takast á við það verkefni sem að honum snýr í ljósi þess að starfsleyfin hafa verið felld úr gildi. Sjávarútvegsráðherra hefur engar slíkar heimildir, þær eru ekki fyrir hendi í lögum.