149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna en ég áttaði mig á köflum ekki alveg á því hvert hún væri að fara. Ég dró samt þá ályktun að hún hefði áhyggjur af því að þetta væri fordæmisgefandi. Ég er ekki lögfræðingur þannig að ég get ekki tjáð mig beint um það en málið er grafalvarlegt. Eins og kom fram í andsvari áðan er búið að afturkalla leyfin í laxeldinu.

Við vorum með fund í atvinnuveganefnd í morgun. Á fundinn komu gestir frá Matvælastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Það kom alveg skýrt fram að Skipulagsstofnun hefur m.a. með það að gera koma þeim upplýsingum til leyfishafa hvernig þeir eiga að ganga frá þeim málum, þannig að það sé rétt í alla staði. Þegar talað er um laxeldið og að kostir séu um lokaðar kvíar, geldlax eða landeldi þá gefur augaleið að fyrir vestan, á Vestfjörðum, er ekkert slíkt í boði. Það er ekkert undirlendi. Lokaðar kvíar þola ekki nema einn og hálfan metra í ölduhæð og geldlax er ekkert kominn á það stig að hægt sé að nota hann til áframeldis.

Eins og ég skil frumvarpið er eingöngu verið að bregðast og koma böndum á að hægt sé að halda áfram starfsemi tímabundið þangað til annað kemur í ljós. Þar liggja undir 200–300 störf og gríðarleg verðmæti. Ég átta mig því ekki alveg á nálgun þingmannsins, en kem betur að því í seinna skiptið.