149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um að veita hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimild til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða. Málið er þess eðlis að mjög brýnt er að það fái mjög fljóta og góða afgreiðslu á þingi. Það er mikið undir því að hægt sé að mæta þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að starfsleyfið, rekstrarleyfið, sé fellt úr gildi og starfsleyfið líka.

Ekki er hægt að bregðast við slíkri niðurstöðu og úrskurði ef ráðherrar sem fara með þá málaflokka hafa ekki sömu heimildir. Umhverfisráðherra hefur heimild til að fresta réttaráhrifum ef hann fær rökstudda umsókn um það frá aðilum sem hafa haft þau leyfi en ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar hefur það ekki. Ég tel að auðvitað hefði átt að vera búið að sjá það í einhverju ferli að það vantaði upp á að sá ráðherra hefði slíka heimild. Það hefði verið ósköp gott ef stjórnspekingar hefðu bent á og séð það fyrir áður en málið var komið í öngstræti. Það hefði verið mjög gott. Við höfum fjölda lögspekinga innan ráðuneyta og í stjórnsýslunni en því miður uppgötvaðist það ekki fyrr. Menn þurfa oft að læra af því að reka sig á. Það gerum við núna.

Málið er þannig vaxið að ekki er hægt að gera annað en að fara hratt og örugglega í það með þeim tækjum og tólum sem við höfum á Alþingi. Við verjum algerlega að það haldi samkvæmt öllum stjórnsýslulögum og lögfræðingar hafa skoðað í bak og fyrir hvað sé best að gera í stöðunni. Ég held að þingheimur sé allur sammála því að vilja ekki horfa upp á að það sem er undir hjá fyrirtækjunum, bæði gagnvart því verðmæti sem liggur í sjókvíaeldinu og því hráefni sem þar er undir eða gagnvart atvinnu eða byggðinni, fari til spillis. Sú hætta er fyrir hendi.

Eins og hefur komið fram í umræðunni er Matvælastofnun gert að fylgja því eftir þegar úrskurður fellur á þann veg hjá úrskurðarnefndinni að stoppa reksturinn. Það er ótækt að yfirmaður málaflokksins, hæstv. ráðherra, hafi ekki nein verkfæri í vopnabúri sínu til að geta gætt meðalhófs í því efni. Það kemur engum til góða að mikil verðmæti fari forgörðum og að óafturkræfur skaði verði. Það hefur verið nefnt hér og maður hefur vissulega áhyggjur af því að ríkið sé skaðabótaskylt ef ekkert er að gert. Þá skiptir líka miklu máli að gengið sé hratt og örugglega í hlutina og gripið til þeirra aðgerða sem ríkisvaldið getur gripið til til að takmarka og skaðaminnka það sem blasir við varðandi skaðabótakröfur fyrirtækjanna á ríkið vegna þess að þau hafi ekki fengið rétta málsmeðferð.

Matvælastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun eru allar sammála um að þær hafi unnið eftir því regluverki sem er lögum samkvæmt í gildi og eru ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndar. Fyrst og fremst og eingöngu er bent á þetta sem formgalla, vissulega umdeildan því að það hefur komið fram í áliti aðila eins og Skipulagsstofnunar að ekki eigi að þurfa að benda á óraunhæfa valkosti og að fyrirtækin hafi í frummati sínu, matsskýrslu, rökstutt hvers vegna þau hafi ekki bent á aðra valkosti en þau sóttu um, sjókvíaeldi. En ekki hefur verið gert neitt með það og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leitaði ekki í vinnu sinni til Skipulagsstofnunar sem hefur með mat á umhverfisáhrifum að gera gagnvart ósk fyrirtækja um rekstrarleyfi.

Málið fer núna til atvinnuveganefndar þar sem ég er í formennsku og ég vona að Alþingi vinni hratt og örugglega að málinu svo að ekki standi á því að ráðherra hafi þá heimild sem hann þarf að hafa. Hann er æðsti maður málaflokksins. Ráðherra er lýðræðislega kosinn og ber stjórnskipulega ábyrgð á málaflokknum. Úrskurðarnefndin starfar auðvitað eftir til þess bærum lögum en hún er ekki kosin lýðræðislega af almenningi og ber þess vegna ekki ábyrgð sem slík á því hvaða afleiðingar úrskurðurinn hefur á fólk, fyrirtæki og byggðina. Þess vegna verður yfirmaður málaflokksins, hæstv. ráðherra, að afla sér heimildar, sem hann er að gera með því að leggja fram þetta frumvarp, til að bregðast við þeirri vá sem ég tel að þarna sé á ferðinni.

Minnst var á það áðan að slæmt væri að löggjöfin væri almenn. Ég held þvert á móti að gott sé að þetta sé almenn löggjöf. Það væri frekar óeðlilegt ef við værum að setja löggjöf sem miðaði aðeins við einstök fyrirtæki. Löggjafinn á að byggja á almennri löggjöf sem nær yfir alla og sem er eitthvað sem verður byggt á almennt til lengri tíma, ekki bara stökkva til og breyta lögum fyrir ákveðið fyrirtæki. Ég held að það sé ekki til fyrirmyndar.

Við munum fá stjórnsýslufræðinga og lögfræðinga fyrir nefndina til að fara yfir málið en ég tel að það þoli enga bið og við þurfum að afgreiða það hratt og vel. Ég treysti því að þingheimur hafi skilning á því að þarna er fyrst og fremst á ferðinni heimild til ráðherra til að fresta réttaráhrifum, sem hefði átt að vera komin inn í löggjöfin fyrir löngu síðan. Þetta þarf að gera til að hægt sé að grípa hratt inn í þann feril sem getur valdið ekki aðeins byggðinni og fyrirtækjunum skaða heldur líka ríkinu ef farið verður fram á skaðabætur í málinu af hálfu þeirra aðila sem eiga í hlut. Miðað við þær upplýsingar komu fram og umræður sem áttu sér stað í atvinnuveganefnd í morgun þegar við leituðum upplýsinga hjá Matvælastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun virðist svo vera sem þetta sé annmarki og galli í sjálfu stjórnsýslukerfinu sem þurfi að bæta úr. En skaðinn er skeður. Ég tel að slík heimild sé mikilvæg fyrir ráðherra til að geta beitt við svona aðstæður.