151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[10:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, hefur farið yfir nokkur atriði er varða tekjustofna sveitarfélaganna að undanförnu og fjárhagslegan sveigjanleika þeirra til að bregðast við afleiðingum af aðgerðum ríkisstjórnar í sóttvörnum. Staða mála hjá sveitarfélögum er vægast sagt alvarleg ef stefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Til að byrja með bendir Kristrún á að rekstur sveitarfélaga hafi ekki verið losaralegur á undanförnum árum. Sveitarfélögin hafi skilað álíka rekstrarjöfnuði og ríkissjóður ef frá eru taldar einskiptistekjur ríkissjóðs vegna slitabúa föllnu bankanna. Sveitarfélög landsins hafa almennt verið vel rekin þrátt fyrir að naumt sé til þeirra skammtað, vel rekin þrátt fyrir að flutningur á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga sé 18% af útgjaldaaukningu þeirra frá 2010. Ríkið gerir meira að segja aðhaldskröfu á framlög sín til sveitarfélaganna vegna málefna fatlaðra, aðhaldskröfu á laun.

Það er markmið stjórnvalda að gefa í upp úr niðursveiflunni, að koma með innspýtingu og drífa allt af stað aftur. En á sama tíma sýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fjárfesting sveitarfélaga verður langt undir sögulegu meðaltali. Niðurstaðan er að þótt fjárfestingar ríkisins tvöfaldist á næsta ári miðað við árið 2019 minnkar fjárfesting bæði sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Heildarfjárfestingin hjá hinu opinbera verður 15 milljörðum minni en fyrir tveimur árum síðan og sambærileg við árið í ár. Það er nú öll innspýting hins opinbera sem á að koma okkur út úr kreppunni. Ríkisstjórnin varpar bara ábyrgðinni á hallarekstri yfir á sveitarfélögin. Það er ábyrgðarlaust og glæfralegt og vinnur gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar, það bitnar á grunnþjónustu við íbúa þessa lands, það bitnar á viðkvæmustu hópunum og grefur undan grunnstoðum sveitarfélaga.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig getur sveitarstjórnarráðherra varið jafn glæfralega og ábyrgðarlausa stefnu gagnvart sveitarfélögum landsins?